Landhelgisgæslan telur mikilvægt að koma upp ratsjáreftirliti með umferð á hafinu næst landinu. Árvekni sjómanna á fiskiskipi er að þakka að smyglskútan Sirtaki gat ekki læðst óséð um landhelgina. Hún tilkynnti sig ekki við komu í landhelgina eins og henni bar og sást ekki í fjareftirliti.
Halldór Nellett, forstjóri aðgerðasviðs LHG, vill byrja á að setja upp radara við strönd Suður- og Suðausturlands og telur það gjörbreyta eftirlitinu.
Sterkur grunur leikur á að skútur hafi oftar komið við sögu við fíkniefnasmygl en í Pólstjörnumálinu sem komst upp í september 2007 og nýlegu Gleðivíkurmáli.
Þannig er talið að skútan Ely sem birtist í Höfn á Hornafirði og lá þar við bryggju 2007-8 hafi „ekki komið hingað upp á grín“ eins og viðmælandi orðaði það. Tenging Ely við mann sem handtekinn var í Gleðivíkurmálinu ýtir undir grunsemdir um að hún hafi verið notuð til smygls.
Eftir að Pólstjörnumálið komst upp rifjaðist upp fyrir Fáskrúðsfirðingum að dularfull skúta, Lucky Day, hafði komið þangað fyrirvaralaust í september 2005. Annar skipverja á henni var tekinn í Pólstjörnumálinu.