Viðgerð er nú lokið á elsta skipi landsins, Vigur Breið, í eyjunni Vigur. Stendur það nú aftur á sínum stað í fjörukambinum.
Umfangsmikil viðgerð á elsta skipi Íslands, áttæringnum Vigur Breið, hefur staðið yfir frá því í desember. Var þá báturinn tekinn inn í fjóshlöðuna í Vigur og fór viðgerðin þar fram.
Skipt var um mörg borð í byrðing skipsins og eins voru nokkur bönd endurnýjuð. Þá var sett var nýtt undirstefni að framan og nýtt drag undir kjölinn. Er talið að ástand bátsins sé nú hið besta. Var það Salvar Baldursson, bóndi í Vigur, sem sá um viðgerðina og honum til aðstoðar var Bjarni Baldursson.
Æðarfuglinn sýndi
viðgerð skipsins mikinn áhuga og gerðu tvær æðarkollur
sér hreiður undir skipinu inni í hlöðunni. Högguðust þær ekki þrátt fyrir véladyn
og mannaferðir.
Um síðustu helgi var skipið svo dregið
á sinn stað á fjörukambinum í Vigur þar sem það verður íbúum eyjarinnar
og áhugasömum ferðamönnum til ánægju og yndisauka.
Breiður var síðast notaður til fjárflutninga
árið 2000, en eftir að fjárbúskapur lagðist af í Vigur sama ár hefur
notkun hans legið niðri.
Öruggar heimildir eru til um Vigur
Breið frá árinu 1829.
Sjá meira á vef BB.