Þótt ekki nema tíundi hluti ásakana á hendur útrásarvíkingum Íslands standist, er sennilega um að ræða stærsta svikamál Evrópu frá seinni heimstyrjöld. Þetta segir í grein, sem hefur yfirskriftina „Leitin að milljörðum útrásarvíkinganna" og birtist í vefútgáfu viðskiptablaðs Berlingske Tidende í dag, Business.dk.
Í greininni er rakið hvernig rannsókn á efnahagshruninu á Íslandi sé hafin og að erlendir sérfræðingar hafi verið fengnir hingað til lands. M.a. hafi Glitnir ráðið til sín erlenda einkaspæjarafyrirtækið Kroll sem m.a. er þekkt fyrir að hafa grafið upp fúlgur fjár sem einræðisherrar á borð við Saddam Hussein, Baby Doc og Ferdinand og Imelda Marcos höfðu komið undan. Verkefni fyrirtækisins nú sé að rannsaka hvort eitthvað hafi verið athugavert við útlán Glitnis og reyna að endurheimta eitthvað af fénu.
Segir í greininni að sem stendur séu margar rannsóknir í gangi samhliða á málum tengdum þekktu banka- og viðskiptafólki á Íslandi, sem stýrði fyrirtækjum í eigu útrásarvíkingsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
„Umfangið, kerfisbundin svik og grunur um mögulegt ólöglegt athæfi þar sem skuggamenn, umboðssvik, leynileg og ólögleg hlutabréfalán og ólögleg áhrif á markaði eru í forgrunni sem og fjárhæðir, sem eru geymdar í skattaskjólum, taka engan endi. Enn eru aðeins stöku mál nokkurn veginn upplýst."
Blaðið reifar málefni flugfélagsins Sterling í þessu sambandi og hvernig það tengist FL Group. Málið sé ekki eina dæmið um viðskipti þar sem fyrirtæki Jóns Ásgeirs á hlutabréfamarkaði gerðu óvenjulega lélega samninga en Jón Ásgeir sjálfur eða einhver í hans nánasta hring græddi stórfellt.
Málefni Stíms sé annað dæmi, þar sem eina hlutverk félagsins var að kaupa hlutabréf fyrir peninga sem það fékk að láni hjá Glitni.
Þá er í greininni haft eftir Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra að efnahagshruninu á Íslandi megi líkja við Enronhneykslið í Bandaríkjunum. Það hefði verið staðhæft að íslenskir bankar hefðu búið til frábært viðskiptamódel sem gæti skýrt hvernig bankarnir uxu hraðar og sýndu meiri hagnað en nokkrir aðrir. En sú hafi auðvitað ekki verið raunin.
Niðurstaða greinarhöfundar er að samlíkingin við Enron sé nærtæk. „Það færir okkur aftur til spurningarinnar um hvað einkaspæjarafyrirtæki, sem venjulega eltist við fjársjóði einræðisherra, er að gera í norrænum banka? Einkaspæjararnir eru þar sennilega vegna þess að það er þörf fyrir þá."