Nærri 19 þúsund á vanskilaskrá

ÞÖK

Tæplega 19 þúsund einstaklingar eru á vanskilaskrá vegna skulda sem þeir hafa misst í löginnheimtu. Á milli 400 til 500 detta af skránni mánaðarlega en nýir bætast við. Í október í fyrra voru ríflega 16 þúsund manns á vanskilaskránni.

„Við erum að ná sögulegu hámarki alvarlegra vanskila, í dag eru 18.740 einstaklingar 18 ára og eldri á vanskilaskrá. Á næstu 12 mánuðum er útlit fyrir að 10.275 einstaklingar bætist við en þetta er þá fólk sem ekki er með mál í löginnheimtu í dag,“ segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo. Hún segir að þessi fjöldi geti farið niður í
sjö til átta þúsund verði frekar komið til móts við einstaklinga, stýrivextir lækki, létt á greiðslubyrði þeirra og hjól atvinnulífsins fari að snúast:

„Gangi þessi spá hins vegar eftir má sjá að botninum verður náð hvað varðar almenning um mitt sumar 2010. Afleiðingarnar verða því hvað þyngstar fyrir heimilin árin 2014-2015 því flest vanskilamál eru til birtingar í 4 ár nema skuldir séu uppgerðar á tímabilinu,“ segir hún.

„Vonandi tekst þó að grípa til þannig aðgerða á næstu misserum að ástand heimilanna verði ekki svona þungt,“ segir hún og bendir á til rökstuðnings um hve hratt aðstæður fólks geti breyst til batnaðar þann hóp einstaklinga sem þegar er skráður á vanskilaskrá en þó með aðeins eitt mál í löginnheimtu. „Þetta eru samtals 3.690 manns eða tæplega 20% þeirra sem skráðir eru í alvarlegum vanskilum. Yrði gripið hratt til aðgerða nú má gera ráð fyrir að töluverðar líkur yrðu á því að þessi hópur næði að semja um sín mál, gera upp vanskil og verða afskráð á vanskilaskrá.“

Rakel segir að þeir sem lendi á vanskilaskrá eigi erfiðara með að stofna til reikningsviðskipta en önnur fjármál heimilisins gangi sinn vanagang. Þeir sem séu á vanskilaskrá séu þó búnir að missa tökin á fjármálunum sínum. Hún segir Creditinfo ekki mæla að vanskilin séu bundin landsvæði, aldri eða tekjum fyrir utan að vanskil séu meiri á Suðurnesjum en annars staðar á landinu og vanskil minnki eftir að fólk hefur náð sextugsaldri, en tæplega eitt þúsund manns 60 ára og eldri séu líkleg til að lenda á vanskilaskrá næstu 12 mánuð. „Algengast er að fjölskyldufólk á aldrinum 30-50 ára sé í vanda,“ segir hún.

Æskilegast, að mati Rakelar, væri að alvarleg vanskil færu ekki yfir fimm prósent fyrir 18 ára og eldri, því þannig geti vanskilaskráin tryggt að um 95% fólks fái almennt grænt ljós á fyrirgreiðslur sínar eða reikningsviðskipti.

„Núna eru 7,2% komin í alvarlegustu vanskilin.“ Hún segir að oft þurfi ekki nema 2-3 mánuði fyrir málin að þyngjast og komast á alvarlegt stig. „En það þýðir einnig að heimilin geta við réttar aðstæður rétt sig tiltölulega fljótt af.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert