Skoða þörf á auknum útgjöldum

Eva Joly.
Eva Joly. mbl.is/Billi

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir sjálfsagt að skoða hvort auka þurfi útgjöld vegna rannsóknar sérstaks saksóknara eins og Eva Joly fer fram á. „Þó það sé hart í ári þá finnst mér að þetta megi ekki stranda á fjárskorti."

„Ég vona að við njótum hennar krafta áfram. Það var mjög mikilvægt að fá hana og það hefur þegar skilað sínu," segir Steingrímur. „Við tókum í vetur ákvörðun um að stórefla rannsóknirnar, meðal annars  á grundvelli tillagna hennar en ef það er mat hennar og annarra núna að það þurfi að gera betur, þá bara skoðum við það," segir hann.

Steingrímur segist því vera reiðubúinn að skoða þetta „þó ég sé nú ekki mikið á þeim buxum í fjármálaráðuneytinu þessa dagana að skrifa upp á aukin útgjöld. En í þessu tilviki finnst mér það gegna alveg sérstöku máli. Þegar upp er staðið er þetta ekki bara spurning um peninga, þó það megi í sjálfu sér réttlæta það þannig að kannski mun rannsóknin skila fjármunum ef hún leiðir til þess að það endurheimtast fjármunir. En þetta er líka spurning um réttlæti. Ég held að við hljótum að hafa efni á réttlætinu og ef þarf meira til þá verður það skoðað," segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert