Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að Eva Joly fái þá starfsaðstöðu sem hún telur sig þurfa. Sagði Jóhanna að fullkomin samstaða sé um þetta í ríkisstjórninni.
„Þetta er grundvallaratriði og ég tel hverri einustu krónu vel varið, sem fer til að tryggja að (Joly) hafi þá starfsaðstöðu sem hún telur sig þurfa," sagði Jóhanna þegar hún svaraði fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttir, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið.
„Ég get tekið undir allt sem fram hefur komið hjá Evu Joly og ég hef heyrt hana segja um það sem vantar á upp á starfsaðstöðu og að skipaðir verði sérstakir saksóknarar þrír fyrir hvern þessara banka. Ég get líka tekið undir það sem hún segir varðandi vanhæfi ríkissaksóknara og á því verður að taka. Dómsmálaráðherra er að undirbúa frumvarp þannig að hægt sé að taka á því eins og Eva Joly óskar eftir. Ég tel þetta vera grundvallaratriði," sagði Jóhanna.
Hún sagði mjög mikilvægt að allt sé gert sem í valdi ríkisstjórnar og Alþingis stendur til að byggja upp traust á nýjan leik meðal þjóðarinnar, og hún hafi þá trú á þessari rannsókn, að allt sé gert sem hægt er. „Ég fullvissa þingheim um að svo verður gert af hálfu ríkisstjórnarinnar," sagði Jóhanna.