Telur að Joly starfi hér áfram

Eva Joly og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Eva Joly og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar

Ragna Árna­dótt­ir dóms­málaráðherra tel­ur að Eva Joly, ráðgjafi sér­staks sak­sókn­ara, muni starfa áfram fyr­ir embættið við rann­sókn á hugs­an­leg­um af­brot­um í aðdrag­anda banka­hruns­ins.  Þær funduðu í dag ásamt Ólafi Þór Hauks­syni, sér­stök­um sak­sókn­ara. „Hún verður auðvitað sjálf að svara til um sína aðkomu, eða Ólaf­ur Þór, en ég get ekki metið sam­tal okk­ar á aðra lund en þá að hún muni vinna áfram að rann­sókn­inni,“ sagði Ragna í sam­tali við Frétta­vef Morg­un­blaðsins.

Ragna tek­ur reynd­ar fram að það hafi ekki sér­stak­lega borið á góma á fund­in­um hvort Joly ynni áfram fyr­ir embætti sér­staks sak­sókn­ara, hún væri ráðin hjá því embætti og þyrfti því ekki að svara ráðuneyt­inu um störf sín. Sitt mat sé þó það að hún starfi áfram.

Ráðherra seg­ist hafa óskað eft­ir fund­in­um í dag. Gagn­rýni Joly í Kast­ljós­inu í gær hafi beinst að stjórn­völd­um og hún vilji því  reyna að finna bráða lausn á mál­inu. Ragna sagðist bjart­sýn eft­ir fund­inn í dag.

„Ég óskaði eft­ir þess­um fundi vegna þess að ég hef verið að vinna að ákveðnum laga­breyt­ing­um um það að fjölga sak­sókn­ur­um og um það að unnt verði að setja sér­stak­an rík­is­sak­sókn­ara í mál­efn­um hins sér­staka sak­sókn­ara.“ Eva Joly hafi síðan í Kast­ljós­inu í gær sagt að hún sæi fyr­ir sér nokk­urs kon­ar norskt mód­el varðandi fjölg­un sak­sókn­ara hjá um­ræddu embætti, „og ég vildi heyra nán­ar í henni og Ólafi vegna þessa.“

Ragna skýrði Joly frá því að dóms­málaráðherra hefði ekk­ert um hæfi rík­is­sak­sókn­ara að segja. Hann væri æðsti hand­hafi ákæru­valds­ins og ákvæði sjálf­ur eigið hæfi. Rík­is­sak­sókn­ari væri bú­inn að segja sig frá hluta síns starfs­sviðs og lýsa sig van­hæf­an í mál­efn­um sem varða hinn sér­staka sak­sókn­ara. Joly lýsti þeirri skoðun sinni í gær að það væri ekki nóg; rík­is­sak­sókn­ari yrði að víkja.

„Við átt­um góðan fund, fór­um yfir málið og ég bað hana að kynna mér bet­ur hug­mynd­ir sín­ar um aukn­ar fjár­veit­ing­ar til embætt­is sér­staks sak­sókn­ara af því að ég ætla að leggja minn­is­blað um málið fyr­ir rík­is­stjórn í fyrra­málið, þar sem ég mun skýra frá þeim hug­mynd­um að laga­breyt­ing­um sem ég hef verið að vinna að,“ sagði Ragna Árna­dótt­ir við Frétta­vef Morg­un­blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert