Fær miskabætur vegna eineltis á vinnustað

mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Ásdísi Auðunsdóttur, sem starfaði á Veðurstofunni, hálfa milljón króna í miskabætur vegna eineltis, sem hún sætti á vinnustaðnum. Konan krafðist tæplega 19 milljóna króna í bætur.

Fram kemur í dómnum, að Ásdís réði sig til starfa á Veðurstofunni árið 1999 og starfaði þar fram  í ágúst 2007, en þá fór hún að eigin ósk í launalaust leyfi sem átti að standa í 12 mánuði. Hún stundaði á árunum 2002-2005 doktorsnám í haffræði.

Hún leitaði til stéttarfélags síns vegna þess að hún taldi sig hafa sætt einelti af hálfu yfirmanns síns. Að mati Veðurstofunnar stöfuðu þessir árekstrar af því að konan vildi skilgreina starf sitt með öðrum hætti en yfirmenn hennar.

Veðurstofustjóri fékk hann sérfræðing hjá Starfsleikni til þess að rannsaka málið og í skýrslu sem hann skilaði er niðurstaðan sú, að framkoma yfirmannsins í garð Ásdísar falli undir skilgreiningu á einelti á vinnustað. Um hafi verið að ræða ferli endurtekinnar hegðunar á formi athugasemda og athafna yfirmannsins sem væru til þess fallnar að hafa valdið niðurlægingu, gert lítið úr, móðgað, sært, mismunað, ógnað, eða valdið vanlíðan starfsmannsins.

Héraðsdómur segir, ekki verði annað ráðið en að það hafi fyrst verið í kjölfar kvörtunar Ásdísar, sem veðurstofustjóri brást við og fékk sérfræðing til þess að rannsaka málið, ásamt því að rannsaka málið að eigin frumkvæði. Frumkvæði að rannsókn þess hvort einelti viðgengist á Veðurstofunni virðist því ekki hafa komið frá veðurstofustjóra þrátt fyrir ábendingar og umleitan Ásdísar eftir aðstoð, alveg frá því í desember 2006, heldur virðist rannsókn fyrst hafa verið gerð þegar veðurstofustjóri sá sig knúinn til þess vegna kvörtunar Ásdísar til stéttarfélags síns.

Er það mat dómsins, að þessi síðbúnu viðbrögð veðurstofustjóra hafi falið í sér vanrækslu af hans hálfu og verið til þess fallin að valda Ásdísi vanlíðan. Var ríkið talið skaðabótaskylt vegna þess. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert