Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, hefur ákveðið að taka sér leyfi frá störfum sem formaður SA um óákveðinn tíma, frá og með deginum í dag, þar til mál skýrist varðandi stöðu hans í rannsókn sérstaks saksóknara á fjárfestingarstarfsemi Sjóvar. Í bréfi sem Þór ritar félagsmönnum SA í dag segist hann engan hátt vilja að samtökin verði fyrir skaða vegna þessarar rannsóknar sem sé þeim algjörlega óviðkomandi.
Bréf Þórs Sigfússonar til félagsmanna:
Til félagsmanna í Samtökum atvinnulífsins
„Sérstakur saksóknari hefur nú hafið rannsókn á fjárfestingastarfsemi Sjóvár þar sem ég var forstjóri þangað til undir lok maí sl. Ég hef lýst því yfir í fjölmiðlum að ég telji að störf mín fyrir Sjóvá hafi í einu og öllu verið í samræmi við lög enda vann ég af metnaði og bestu samvisku fyrir fyrirtækið.
Mér er umhugað um að starfsemi Samtaka atvinnulífsins gangi eins vel og kostur er og vil á engan hátt að samtökin verði fyrir skaða vegna þessarar rannsóknar sem er þeim algjörlega óviðkomandi.
Því hef ég ákveðið að taka mér leyfi frá störfum frá 9. júlí sem formaður Samtaka atvinnulífsins um óákveðinn tíma þangað til mál skýrast varðandi stöðu mína í rannsókns sérstaks saksóknara."
Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins
Heimasíða Samtaka atvinnulífsins