Ásmundur farinn í heyskap

Ásmundur Einar Daðason, bóndi og þingmaður VG, að merkja fé …
Ásmundur Einar Daðason, bóndi og þingmaður VG, að merkja fé í fjárhúsunum á Lambeyrum. mynd/Helgi Torfason

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, hyggur á ferð vestur í Dali í dag og á morgun, til að taka þátt í heyskap, en hann er bóndi. Þetta sagði hann í samtali við mbl.is, þegar rætt var við hann eftir að hann yfirgaf þingfund.

Ásmundur lýsti því yfir á þingi í morgun að hann tæki ekki þátt í umræðum um ESB-málið, þar sem honum væri hótað stjórnarslitum ef hann færi eftir sannfæringu sinni. Hann hafði í gær hugsað sér að taka þátt í breytingartillögu með þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna, þar sem lögð yrði til tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla.

Að sögn þingmanna sem rætt hefur verið við var breytingartillaga þessi tilbúin fyrir nokkru síðan og var komin frá Sjálfstæðisflokknum. Þá fóru í gærkvöldi fram þreifingar um að fá fólk úr öðrum flokkum til að flytja hana einnig.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru það Birgitta Jónsdóttir úr Borgarahreyfingunni og Gunnar Bragi Sveinsson úr Framsóknarflokki sem rætt var við. Þá ætluðu Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að flytja tillöguna, og gera það reyndar nú, þegar hún hefur verið lögð fram. Segja þingmenn að fallið hafi verið frá því að þingmenn þessara flokka, Borgarahreyfingar og Framsóknar, yrðu með þegar Ásmundur sagði sig frá því.

„Ég hef alltaf haft hug á því að flytja tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í málinu. Fá skýrt umboð til að fara í þessar umræður og fara svo í viðræðurnar á þeim grunni,“ sagði  Ásmundur við blaðamann. „Ef það hefði átt að tryggja að tillagan færi í gegn óbreytt hefði ríkisstjórnin alveg eins getað sótt um aðild sjálf, það hefði ekki þurft að blanda Alþingi í málið.“

Hann segir að sér hafi verið tilkynnt að það yrðu stjórnarslit ef hann yrði meðflutningsmaður tillögunnar, en það hafi ekki verið hans vilji að slíta stjórninni. „En ég styð þessa breytingartillögu heilshugar, ég vil að það komi skýrt fram og ég mun kjósa með henni,“ bætir hann við. Hann er því alls ekki fallinn frá sannfæringu sinni í málinu, þó svo hann hafi hætt við að vera flutningsmaður tillögunnar.

Hann segist hafa viljað taka þátt í tillögunni vegna málefnisins. Þingstyrkur sé knappur í málinu og nauðsynlegt sé að fá skýrt umboð frá þjóðinni. Hann minnir einnig á að nýleg skoðanakönnun hafi leitt í ljós að 76% þjóðarinnar vilji fá tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina að ESB.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka