Fyrirhugaðar fjárfestingar og sala Reykjanesbæjar á eignarhlutum í orku- og veitufyrirtækjum hafa jákvæð áhrif á rekstur og efnahag bæjarins. Á árinu 2009 eru áhrifin talin jákvæð um yfir 10 milljarða en verulega minni eftir það. Kemur þetta fram í umsögn Guðmundar Kjartanssonar, endurskoðanda Reykjanesbæjar, um samningana við Geysi Green Energy sem lagðir verða fram á fundi bæjarstjórnar í dag þegar samningarnir verða teknir til umræðu og væntanlega einnig afgreiðslu.
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, sagði frá þessu áliti á íbúafundi sem bæjarstjóri efndi til í gærkvöldi. Guðbrandur Einarsson, oddviti minnihlutans í bæjarstjórn, sagði að sá flýtir sem verið hefði á málinu væri illskiljanlegur og vekti tortryggni. Hann lýsti mismun í verðmati og sagði að allt of miklu munaði til að hægt væri að láta eins og ekkert væri. Hann sagði nauðsynlegt að láta endurmeta verðmæti fyrirtækjanna, miðað við aðstæður í dag og sagði síðar í framsögu sinni að gera þyrfti sjálfstætt mat á verðmæti hvors fyrirtækis fyrir sig, það er HS orku og HS veitum. Guðbrandur sagðist ekki geta fullyrt nú hvort það þjónaði hagsmunum bæjarins að gera einhverjar breytingar á eignarhaldi orkufyrirtækjanna en það þyrfti að gera rétt og heiðarlega.
Árni Sigfússon bæjarstjóri sagði að við samningana hefði verið stuðst við verðmat sem Capacent gerði fyrir HS orku á síðasta ári, fyrir hrunið. Sagðist hann stoltur af að geta haldið í við það mat, miðað við það sem síðan hefði á gengið. Það væri ekki í þágu Reykjanesbæjar að gera nýtt verðmat. „Þetta er góður samningur, fyrir þá sem vilja eiga HS veitur,“ sagði Árni og bætti því við ekki væri víst að allir í salnum vildu eiga það fyrirtæki.