Leita umsagna um rannsóknarboranir í Gjástykki

Í Gjástykki rann mikið hraun yfir gróið land á árunum …
Í Gjástykki rann mikið hraun yfir gróið land á árunum 1975 -84 mbl.is

Frummatsskýrsla um borun allt að þriggja rannsóknarborhola á einum borteig í Gjástykki í Þingeyjarsveit hefur verið lögð fram af hálfu Landsvirkjunar til umsagnar. Áform um boranir á þessu svæði eru liður í samstarfi Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. um rannsóknir og könnun á virkjunarmöguleikum háhitasvæða á Norðausturlandi, það er á Þeistareykjum, í Kröflu, Bjarnarflagi og Gjástykki.

Landsvirkjun er með rannsóknarleyfi í Gjástykki auk þess sem samið hefur verið við landeigendur um rannsóknar- og nýtingarrétt þess hluta Gjástykkis sem tilheyrir Reykjahlíð. Jarðhitakerfið í Gjástykki er talið ná yfir um 10 km2 svæði.

Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á Gjástykkissvæðinu undanfarin ár benda til þess að virkja megi jarðhita þar. Til að fá úr því skorið hvort um nýtanlegan jarðhita til vinnslu sé að ræða þarf að bora rannsóknaholur og afla með því nauðsynlegra gagna um eðli jarðhitans í Gjástykki.

Rannsóknarsvæði Landsvirkjunar er um 32 km2 að stærð og nær til Þingeyjarsveitar, Norðurþings og Skútustaðahrepps. Samkvæmt stefnu viðkomandi sveitarfélaga verður Gjástykki aftast í framkvæmdaröð jarðhitavirkjana í Þingeyjarsýslum, að því er segir í frummatsskýrslunni.

Í fyrstu verður lögð áhersla á rannsóknir þar, þar með taldar rannsóknaboranir. Ekki verður virkjað í Gjástykki nema hin svæðin gefi ekki nægjanlega orku fyrir starfsemi og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum.

Gjástykkisbunga er lítil dyngja milli Hrútafjalla og Sandmúlahæða og sú eina sem örugglega hefur gosið innan Kröflukerfisins. Gjástykki er sigdalur, sem liggur yfir miðja Gjástykkisbungu, og er að hluta til þakið ungum hraunum. Svæðið er í 400-500 m h.y.s. og vel aðgengilegt til vinnslu. Í Kröflueldum rann hraun yfir syðsta hluta Gjástykkis og nær kolsvart hraunið norður fyrir Hituhóla, móbergsfell í nágrenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis. Jarðmyndanir í Gjástykki eru móberg og bólstraberg í hólum og smáfellum og allt umhverfis eru hraun af ólíkum uppruna og aldri. Framkvæmdir tengdar rannsóknaborunum í Gjástykki fela í sér gerð borteigs, borun og prófun á rannsóknaholum.

Aðkoma að borteig er eftir fyrirliggjandi vegslóð sem greinist í austur frá veginum að Þeistareykjum um Hólasand. Leiðin er tæplega 11 km löng af Þeistareykjavegi og liggur meðfram girðingu, norðan við Gæsafjöll. Síðastliðin tvö sumur (2007 og 2008) hefur vegslóðin verið lagfærð og styrkt á vegum Þeistareykja ehf. í samráði við Þingeyjarsveit til að bæta aðgengi að Gjástykki. Nokkrir kaflar vegslóðarinnar að fyrirhuguðum borteig verða lagfærðir og hún styrkt enn frekar skemmist hún á framkvæmdatíma.

Fyrirhugaður borteigur verður við hliðina á kjarnaholu GR-3, sem var boruð haustið 2007, norðan við vegslóðina sem liggur þar yfir hraun frá Kröflueldum. Á borteig þarf að útbúa stæði fyrir borinn og fylgihluti hans. Flatarmál borteigsins verður 3.500 til 5.500 m2. Áætluð fylliefnisþörf fyrir borteiginn er allt að 3.000 m3. Affallsvatni frá borunum og blástursprófunum verður veitt í lögnum út í nálægar sprungur eða gjár.

Ráðgert er að opna námu vestan við Draugagrundir, norðan við Gæsafjöll, til að ná í fyllingarefni í fyrirhugaðan borteig. Efnið úr námunum nýtist einnig við lagfæringar á vegslóðinni að borteignum. Ef rannsóknaboranir leiða í ljós að borholur verði ekki nýttar sem vinnsluholur verður gengið frá svæðinu. Við frágang yrðu ummerki eftir boranirnar fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf eins og mögulegt er, að því er segir í frummatsskýrslunni.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert