Dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur, Guðjón Marteinsson, frestaði rétt í þessu aðalmeðferð í Papeyjarmálinu svonefnda þar sem lögfræðingur meints höfuðpaurs fór fram á frávísun þar sem dómstólinn hafi ekki refsilögsögu yfir skjólstæðingi hans sem er hollenskur.
Eins og fram hefur komið lagði lögreglan hald á rúmlega 100 kíló af fíkniefnum á Austurlandi í apríl. Um er að ræða amfetamín, marijúana, hass og e-töflur. Um helmingur fíkniefnanna reyndist vera amfetamín, eða 55 kg. Einnig var mikið af marijúana, eða 34 kg, og hassi, eða 19,5 kg. E-töflurnar voru rúmlega 9.400 talsins. Talið er að fíkniefnin hafi verið flutt hingað með seglskútunni Sirtaki. För skútunnar var stöðvuð djúpt út af SA-landi eftir mikla eftirför.
Ólafur Örn Svansson, lögmaður Hollendingsins, sem ákærður er fyrir aðild að smyglinu, lagði fram frávísunarkröfu fyrir dómara í morgun. Í greinargerð sem fylgdi með kemur fram að hann krefjist þess að málinu verði vísað frá dómi þar sem íslensk yfirvöld hafa enga refsilögsögu yfir Hollendingnum. Því geti dómsstólar ekki tekið efnislega afstöðu til ætlaðrar brota sem honum er gefið að sök samkvæmt ákæru. Með refsilögsögu er að lögum átt við vald ríkis til þess að setja refsilög og til að framfylgja þeim með rannsókn, dómi og refsifullnustu.
Í greinargerð verjanda segir m.a.: „Af framangreindu er fullkomlega ljóst að íslenska ríkið hefur ekki lögsögu yfir hollenskum ríkisborgara sem siglir auk þess undir fána annars ríkis. Sú niðurstaða leiðir eðli málsins samkvæmt ekki til þess að ákærði teljist laus allra mála ef sannað þykir að hann hafi gerst brotlegur við lög þessara ríkja, en íslenska ríkið hefur skuldbundið sig um að upplýsa þessi lönd um ætluð brot. Reglur þjóðarréttar leiða einvörðungu til þess að réttað verði yfir honum í slíku máli annað hvort í Belgíu, á grundvelli reglna um lögsögu fánaríkis, eða í Hollandi, á grundvelli reglna þjóðarréttar um þjóðerni.“
Þar er einnig bent á að hvergi í gögnum málsins komi fram að ákærði hafi farið inn fyrir íslenska landhelgi og því sé útilokað að ætluð brot hans heyri undir íslensk refsilög. Að mati verjanda var handtaka ákærða ólögmæt, en það skýrist af því að handtakan hafi farið fram utan landhelgi Íslands í kjölfar ólögmætrar óslitinnar eftirfarar.
Dómari sá sér ekki annað fær en að fresta aðalmeðferð málsins sem fram átti að fara í dag. Ef dómari samþykkir frávísunarkröfuna þá hefur saksóknari heimild til þess að kæra ákvörðun dómara til Hæstaréttar. Ef dómari hins vegar fellst ekki á frávísunarkröfuna, en hún verður tekin fyrir í héraðsdómi klukkan 9 í fyrramálið, þá mun aðalmeðferð í málinu fara fram að viku liðinni.