Economist: Líklegt að farið verði að dæmi Norðmanna

Reuters

Fram kemur í grein Economist um aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu að fyrir liggi að leið Íslendinga inn í sambandið verði löng og torfær þrátt fyrir allar umræður um hugsanlega flýtimeðferð.

Í greininni segir að þrátt fyrir að Ísland sé þegar aðili að evrópska efnahagssvæðinu og bjartsýnustu menn telji því að það geti fengið inngöngu í sambandið á sama tíma og Króatía árið 2012 eða 2013 séu a.m.k. þrjú ljón í veginum.

Litlar líkur verði að teljast á því því að Íslendingar fái undanþágu frá sjávarútvegsstefnu sambandsins og staðfesta Íslendinga í þorskastríðunum gefi ekki til kynna að þeir muni gefa neitt eftir varðandi yfirráð yfir fiskimiðum sínum.

Þá sé ástand efnahagsmála á Íslandi skelfilegt og þýskir og hollenskir áhrifamenn hafi þegar gefið í skyn að ekki komi til greina að Íslendingar fái aðild að sambandinu fyrr en þeir hafi komið þeim málum ílag.

Mikil andstaða sé einnig við aðild á Íslandi þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt að hefja umsóknarferlið. Efna þurfi til þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlegan aðildarsamning og skoðanakannanir bendi ekki til þess að hann verði samþykktur.

Mikil andstaða sé við sjávarútvegsstefnu sambandins á Íslandi auk þess sem margir Íslendingar reki efnahagshrunið að hluta til til aðstæðna sem hafi skapast vegna aðildar landsins að evrópska efnahagssvæðinu.

Það muni því að öllum líkindum reynast stjórnarandstöðunni létt verk að virkja andstöðu Íslendinga við aðild og að líklegt verði að teljast að Íslendingar muni fara að dæmi Norðmanna sem tvisvar hafi hafnað aðild eftir að samkomulag hafi verið í höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka