Skátar í íslenskri fjallarómantík

Mynd Skátar/GSt

Tjaldbúð tæplega 3.200 skáta frá 50 löndum rís við Úlfljótsvatn á morgun. Þetta eru þátttakendur Roverway skátamótsins sem nú stendur yfir. Frá því á mánudag hafa 52 fimmtíu manna hópar verið í leiðöngrum víðsvegar um landið en á morgun sameinast hópurinn að Úlfljótsvatni og efnir til hátíðar. Fimmtíu skátar frá Spáni, Portúgal,Frakkland, N-Írlandi, Tékkland og Svíþjóð völdu sér leiðangurinn Fjallarómantík á fyrri hluta Roverway.

Skátarnir eru á aldrinum 18 – 22 ára og eru með tjaldbúð sína í Esjuhlíðum. Hópurinn hefur undanfarna daga gengið á Esjuna, Móskarðshnjúka, Tröllaskarð og að Tröllafossi, sem reyndist þegar að var komið hálfgerður Dvergafoss sökum vatnsleysis.

Sólskin og blíðviðri undanfarna daga hefur ekki dregið úr rómantíkinni í ferðinni og er ekki laust við að birti yfir andlitum spænsku og frönsku drengjanna þegar sænsku skátaljóskunum þykir betra að vera í hlýrabol en flíspeysu.

Varðeldarnir á kvöldin, þar sem sungið er við gítarspil og snarkið í eldinum draga ekki úr stemningunni.

Í gær fór leiðangurinn í sjálfboðavinnu á svæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar við Hamrahlíð. Þar var unnið daglangt við að bera hrossatað og annan lífrænan áburð að væntanlegum Jólatrjám Mosfellinga og snyrta stíga. Í fallegum grenilundi byggði hópurinn borð og bekki og burðargrind í stórt Indíánatjald úr trjástólpum úr skóginum. Dagsverkinu lauk svo í Lágafellslaug þar sem skátunum þótti gott að þrífa af sér hrossataðslyktina og göslast í heita pottinum.

Alþingi að Úlfljótsvatni

Á morgun heldur hópurinn að Úlfljótsvatni þar sem hann hittir yfir 3.000 skátasystkini sín úr hinum 52 leiðöngrum Roverway-skátamótsins og tekur þátt í fjölbreyttri dagskrá fram á þriðjudag í næstu viku.

Almennu dagskránni er skipt upp í  5 dagskrárþorp en þar má finna Listaþorpið ( Arty party Village), Þjóðfélagsþorpið ( Politic, society, science and technology Village), Umhverfisþorpið (Environment Village), Víkingaþorpið ( Viking Village) og Íþróttaþorpið (Sport Village).

Auk þess verður boðið upp á fjölda stuttra ferða um nágrenni Úlfljótsvatns og fjölbreytta skemmtidagskrá. Fimm kaffihús verða opin á svæðinu, hvert með sína sérstöðu í veitingum, tónlist og stemningu, m.a. Tékkneskt tehús, Buris Boozt Bar,  Ýmis Inn, Ginnungagap Staff Café og Cafe Auðhumla. Íslenskar bíómyndir verða á kvikmyndatjaldi, Útvarpsstöðin Ragnarök 93,1 er tónlistarstöð mótsins og flytur jafnframt fréttir af markverðustu viðburðum mótsins hverju sinni og dagblaðið Ratatoskr kemur út daglega og flytur af fréttir og upplýsingar um það sem hæst ber.

Karnival á sunnudag

Karnival-dagurinn, sunnudaginn 26. júlí verður hápunktur skemmtidagskrárinnar. Skemmtidagskráin hefst kl. 14:00 og stendur fram eftir kvöldi, öll kaffihúsin verða opin og allir erlendu hóparnir, 50 talsins, setja upp kynningarbása með þjóðlegri menningar og skemmtidagskrá.

Fjölbreytnin er gríðarleg og geta þátttakendur lært gríska, skoska, tékkneska, rúmenska, slóvenska, búlgarska, katalónska, írska og spænska dansa. Þá geta þeir lært að búa til grískt „kompoloi“, kynnst hollenskum drottningardegi, kynnst búlgörsku handverki, leikið maltneskt „passju“ og slóvenskt „lietaéky“, tekið þátt í sænskri „Mini-Wasa“ skíðagöngu án skíða, leikið á slóvenskt „fujara“  smakkað á Lúxembúgrískum „Kniddelen“, spænskum ommilettum, finnskum pönnukökum, bavarian osti, þýsku „Tschai“, svo fátt eitt sé nefnt.

Mynd Skátar/GSt.
Mynd Skátar/GSt
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert