Skátar í íslenskri fjallarómantík

Mynd Skátar/GSt

Tjald­búð tæp­lega 3.200 skáta frá 50 lönd­um rís við Úlfljóts­vatn á morg­un. Þetta eru þátt­tak­end­ur Roverway skáta­móts­ins sem nú stend­ur yfir. Frá því á mánu­dag hafa 52 fimm­tíu manna hóp­ar verið í leiðöngr­um víðsveg­ar um landið en á morg­un sam­ein­ast hóp­ur­inn að Úlfljóts­vatni og efn­ir til hátíðar. Fimm­tíu skát­ar frá Spáni, Portúgal,Frakk­land, N-Írlandi, Tékk­land og Svíþjóð völdu sér leiðang­ur­inn Fjalla­róm­an­tík á fyrri hluta Roverway.

Skát­arn­ir eru á aldr­in­um 18 – 22 ára og eru með tjald­búð sína í Esju­hlíðum. Hóp­ur­inn hef­ur und­an­farna daga gengið á Esj­una, Mósk­arðshnjúka, Trölla­sk­arð og að Trölla­fossi, sem reynd­ist þegar að var komið hálf­gerður Dverga­foss sök­um vatns­leys­is.

Sól­skin og blíðviðri und­an­farna daga hef­ur ekki dregið úr róm­an­tík­inni í ferðinni og er ekki laust við að birti yfir and­lit­um spænsku og frönsku drengj­anna þegar sænsku skáta­ljós­k­un­um þykir betra að vera í hlýra­bol en flí­speysu.

Varðeld­arn­ir á kvöld­in, þar sem sungið er við gít­arspil og snarkið í eld­in­um draga ekki úr stemn­ing­unni.

Í gær fór leiðang­ur­inn í sjálf­boðavinnu á svæði Skóg­rækt­ar­fé­lags Mos­fells­bæj­ar við Hamra­hlíð. Þar var unnið dag­langt við að bera hrossatað og ann­an líf­ræn­an áburð að vænt­an­leg­um Jóla­trjám Mos­fell­inga og snyrta stíga. Í fal­leg­um greni­lundi byggði hóp­ur­inn borð og bekki og burðargrind í stórt Indí­ána­tjald úr trjá­stólp­um úr skóg­in­um. Dags­verk­inu lauk svo í Lága­fells­laug þar sem skát­un­um þótti gott að þrífa af sér hrossataðslykt­ina og gösl­ast í heita pott­in­um.

Alþingi að Úlfljóts­vatni

Á morg­un held­ur hóp­ur­inn að Úlfljóts­vatni þar sem hann hitt­ir yfir 3.000 skáta­systkini sín úr hinum 52 leiðöngr­um Roverway-skáta­móts­ins og tek­ur þátt í fjöl­breyttri dag­skrá fram á þriðju­dag í næstu viku.

Al­mennu dag­skránni er skipt upp í  5 dag­skrárþorp en þar má finna Listaþorpið ( Arty party Villa­ge), Þjóðfé­lagsþorpið ( Politic, society, science and technology Villa­ge), Um­hverf­isþorpið (En­vironment Villa­ge), Vík­ingaþorpið ( Vik­ing Villa­ge) og Íþróttaþorpið (Sport Villa­ge).

Auk þess verður boðið upp á fjölda stuttra ferða um ná­grenni Úlfljóts­vatns og fjöl­breytta skemmti­dag­skrá. Fimm kaffi­hús verða opin á svæðinu, hvert með sína sér­stöðu í veit­ing­um, tónlist og stemn­ingu, m.a. Tékk­neskt tehús, Buris Boozt Bar,  Ýmis Inn, Ginn­ungagap Staff Café og Cafe Auðhumla. Íslensk­ar bíó­mynd­ir verða á kvik­mynda­tjaldi, Útvarps­stöðin Ragnarök 93,1 er tón­list­ar­stöð móts­ins og flyt­ur jafn­framt frétt­ir af markverðustu viðburðum móts­ins hverju sinni og dag­blaðið Ratatoskr kem­ur út dag­lega og flyt­ur af frétt­ir og upp­lýs­ing­ar um það sem hæst ber.

Karni­val á sunnu­dag

Karni­val-dag­ur­inn, sunnu­dag­inn 26. júlí verður hápunkt­ur skemmti­dag­skrár­inn­ar. Skemmti­dag­skrá­in hefst kl. 14:00 og stend­ur fram eft­ir kvöldi, öll kaffi­hús­in verða opin og all­ir er­lendu hóp­arn­ir, 50 tals­ins, setja upp kynn­ing­ar­bása með þjóðlegri menn­ing­ar og skemmti­dag­skrá.

Fjöl­breytn­in er gríðarleg og geta þátt­tak­end­ur lært gríska, skoska, tékk­neska, rúm­enska, slóvenska, búlgarska, katalónska, írska og spænska dansa. Þá geta þeir lært að búa til grískt „kompoloi“, kynnst hol­lensk­um drottn­ing­ar­degi, kynnst búl­görsku hand­verki, leikið malt­neskt „passju“ og slóvenskt „lietaé­ky“, tekið þátt í sænskri „Mini-Wasa“ skíðagöngu án skíða, leikið á slóvenskt „fujara“  smakkað á Lúx­em­búgrísk­um „Kniddelen“, spænsk­um ommilett­um, finnsk­um pönnu­kök­um, bavari­an osti, þýsku „Tschai“, svo fátt eitt sé nefnt.

Mynd Skát­ar/​GSt.
Mynd Skát­ar/​GSt
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka