Frávísunarkröfu hafnað

Fíkniefnum var smyglað með belgísku skútunni Sirtaki.
Fíkniefnum var smyglað með belgísku skútunni Sirtaki. mbl.is/Árni Sæberg

Frávísunarkröfu meints höfuðpaurs í hinu svonefnda Papeyjarmáli var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Verjandi mannsins fór fram á frávísun málsins þar sem dómstóllinn hafi ekki refsilögsögu yfir skjólstæðingi hans sem er hollenskur. Hann fær ekki að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar og fer aðalmeðferð fram á mánudag.

Hefði krafan verið tekin til greina hefði ákæruvaldið mátt kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Þar sem kröfunni var hafnað tekur Hæstiréttur hana hins vegar ekki til meðferðar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt í héraði, fari svo að málinu verði áfrýjað og kröfunni verði áfram haldið uppi.

Í greinargerð Ólafs Arnar Svanssonar, hrl. og lögmanns Hollendingsins, sem fylgdi kröfunni var á það bent að refsilögsaga geti byggst á grundvelli ýmist landsvæðis, þjóðernis, öryggissjónarmiða, allsherjarlögsögu eða þjóðernis fórnarlambs. Að mati Ólafs nær ekkert þessara fimm atriða til skjólstæðings hans, m.a. þar sem hann sé hollenskur ríkisborgari og hafi aldrei verið búsettur á Íslandi.

Málið snýr að haldlagningu lögreglu á 100 kíló af fíkniefnum á Austurlandi í apríl sl. Um var að ræða amfetamín, marijúana, hass og e-töflur. Talið er að fíkniefnin hafi verið flutt hingað með seglskútunni Sirtaki, en för skútunnar var stöðvuð djúpt út af SA-landi eftir mikla eftirför.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka