„Getum lifað án Evrópu“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég býst við að Ísland gæti orðið aðili að Evr­ópu­sam­band­inu eft­ir þrjú ár,“ sagði Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, í sam­tali við þýska fjöl­miðil­inn Deutche Welle í dag.

Össur seg­ir í viðtal­inu að ein ástæða fyr­ir því að Íslend­ing­ar hafi ákveðið að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu sé sú að nú standi yfir end­ur­skoðun á ut­an­rík­is­stefnu og ör­ygg­is­mál­um lands­ins. „Við stóðum alltaf í þeirri trú að Banda­ríkja­menn myndu vernda okk­ur en þegar þeir fóru héðan árið 2006 þurft­um við virki­lega að leita að öðrum hópi þjóða til að til­heyra.“

Össur seg­ir í viðtal­inu að Íslend­ing­ar hafi ým­is­legt fram að færa fyr­ir Evr­ópu­sam­bandið, ekki síst þekk­ingu sína á meðferð end­ur­nýj­an­legr­ar orku. „Hér á Íslandi erum við sér­fræðing­ar í því að nýta jarðvarma sem ég tel að sé hugs­an­lega orka sem Evr­ópu­sam­bandið hef­ur vannýtt.“ Þá seg­ir Össur að Ísland geti opnað leiðina að Norður-Atlants­hafi og ekki megi gleyma að í framtíðinni verði Ísland ef­laust farið að fram­leiða olíu.

Össur nefn­ir einnig þekk­ingu Íslend­inga á því hvernig best er að varðveita og vernda fiski­stofna. Hann seg­ist jafn­framt aldrei hafa reynt að hunsa þá staðreynd að fiski­stofn­arn­ir verði mesta hindr­un­in í viðræðum Íslend­inga við yf­ir­völd í Brus­sel.

Aðspurður hversu sterka stöðu Íslend­ing­ar hafa í viðræðunum seg­ir ut­an­rík­is­ráðherr­ann að hann telji óhætt að segja að staða Íslands sé góð. „Sum­ir telja kannski að staða okk­ar sé veik því við höf­um lent illa í fjár­málakrepp­unni. En jafn­vel án aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu mynd­um við koma okk­ur út úr krepp­unni fljót­lega. Strax árið 2011 mun­um við sjá hag­vöxt aukast hér á landi. Þannig ég hef ekki mikl­ar áhyggj­ur, við för­um ekki í viðræðurn­ar með það fyr­ir aug­um að við mun­um ekki kom­ast af án Evr­ópu. Það get­um við.“ 

Viðtalið má finna hér.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert