Skemmtisigling á Sirtaki eða stórtæk smyglferð

Fari svo að fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur fallist á málatilbúnað sakborninga í Papeyjarmálinu svonefnda er ljóst að meintir höfuðpaurar þrír voru í skemmtisiglingu á seglskútu undan ströndum Íslands og Færeyja í aprílmánuði. Þeir höfðu með sér tölvutösku fulla af aukahlutum fyrir fartölvu en enga slíka og einn farsíma.

Meintir vitorðsmenn þrír og skipverjar á slöngubátnum, sem notaður var til að sækja fíkniefni í skútu austur af landinu 15-20 sjómílur suður af Papey, verða hins vegar sakfelldir fyrir að smygla rúmum 100 kg af fíkniefnum til landsins af gáleysi. Gáleysi þar sem þeir héldu sig vera taka á móti sterum.

Aðalmeðferð í Papeyjarmálinu var keyrð áfram af mikilli hörku og festu í gærdag. Hún hófst upp úr níu í gærmorgun og var lokið um tíu tímum síðar. Og þó svo að upptökutækin í dómssal 101 hafi bilað þegar vitnaleiðslum var að ljúka ákvað dómsformaðurinn Guðjón St. Marteinsson að halda ótrauður áfram, og notast við lítið upptökutæki með spólu á meðan saksóknari og verjendur fluttu ræður sínar.

„Matlock-flétta“ verjenda

Verjendur meintra höfuðpaura beittu hins vegar svonefndri Matlock-fléttu þegar þeir gáfu útskýringu á framburði Halldórs; fyrir það fyrsta var Halldór einn þriggja sem tekinn var með öll fíkniefnin. Hann hafi því leitað allra leiða til að lágmarka skaða sinn.

Verjendurnir spurðu sakborninga mikið út í aðbúnaðinn á Litla-Hrauni þegar þeir sættu einangrun, skömmu eftir handtöku. Upp úr krafsinu kom að Halldór, Árni, Peter Rabe og Jónas Lúðvíksson voru allir á sama gangi á Litla-Hrauni. Og þrátt fyrir að vera í einangrun gátu þeir séð út um klefa sinn og þannig hina sakborninga. Halldór þekkti ekki Árna né Peter en hann og Jónas voru æskufélagar. Þriðji meinti höfuðpaurinn, Rúnar Þór Róbertsson, var hins vegar á öðrum gangi.

Að mati verjenda sá Halldór Árna og Peter á ganginum áður en honum bauðst að benda á þá sem hann sá í skútunni. Og það skýrir hvers vegna hann greindi aðeins frá tveimur mönnum um borð, ekki Rúnari Þór.

Vilhjálmur Hans Pétursson, verjandi Árna, benti á að fyrir myndflettingu hafi Halldór í skýrslutöku sagst ekki þekkja Árna, og það þrátt fyrir að hann hafi séð hann alloft og komið heim til hans á þeim tíma sem hann bjó með Jónasi Lúðvíki.

Ákæruvaldinu þótti grunsamlegt að þrjár konur, Lindsay, Telma og Hrafnhildur, væru skráðar á leigusamning skútunnar. Á honum voru að vísu full nöfn en þau voru ekki birt í dómssal. Lögregla reyndi að hafa uppi á konunum en án árangurs. Skipverjar héldu því fram að um væri að ræða gleðikonur sem þeir ætluðu að sækja í höfn einni í Hollandi en hættu við á síðustu stundu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert