Alþekkt að orkuverð hér sé lágt

Kárahnjúkar
Kárahnjúkar mbl.is/ÞÖK

Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur og einn skýrsluhöfunda Sjónarrandar um arðsemi orkusölu til stóriðju, segir að enginn skýrsluhöfunda hafi neinna sérhagsmuna að gæta í málinu og vonandi verði hægt að halda umræðunni við málefni framvegis. Það sé alþekkt að orkuverð hér á landi sé lágt.

Þorsteinn svarar þar gagnrýni Ágústs F. Hafberg, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, á skýrsluna í blaðinu í gær. Hélt hann því m.a. fram að útreikningar í skýrslunni væru rangir og niðurstöður hennar þar af leiðandi rangar.

„Það er rétt að Ágúst Hafberg hafði samband við höfunda og benti á skekkju í tölum fyrir árið 2006 í einni töflu í skýrslunni. Umrædd skekkja snýr að tölum um arðsemi eiginfjár hjá orkufyrirtækjum. Leiðréttingu hefur verið komið á framfæri og er Ágústi þökkuð ábendingin. Ályktanir og samanburður í skýrslunni byggjast hins vegar að öllu leyti á arðsemi heildarfjármagns og því hefur þetta atriði þar engin áhrif,“ segir Þorsteinn.

Eftir að afla eldri gagna

„Við eigum eftir að afla eldri gagna fyrir erlend orkufyrirtæki, til að breikka tímabilið, en við teljum engu að síður að þær vísbendingar sem við sjáum séu marktækar,“ segir Þorsteinn.

Þá gagnrýndi Ágúst að tölur um íslensku orkufyrirtækin fyrir árið 2007 væru ekki í skýrslunni. Varðandi þetta segir Þorsteinn að tölur um arðsemi íslensku fyrirtækjanna byggist á gögnum frá Hagstofu sem tiltæk voru þegar skýrslan var unnin, í apríl og maí á þessu ári. Í lokaútgáfu skýrslunnar verði vitanlega nýjustu tiltækar tölur notaðar.

Um þá gagnrýni talsmanns Norðuráls að samanburður sé gerður á öllum orkufyrirtækjum en ekki aðeins þeim sem selja orku til stóriðju segir Þorsteinn:

„Rétt er að geta þess að Landsvirkjun er alls staðar skoðuð sérstaklega. Það breytir ekki niðurstöðunni. Eins og fram hefur komið er verkefnið í þessum áfanga að gera slíkan heildarsamanburð, en nánari greining verður birt í lokaútgáfu skýrslunnar.“

Þorsteinn segir meginniðurstöðuna varðandi arðsemi orkufyrirtækja vera þá að hún sé lág á Íslandi samanborið við önnur lönd og aðrar atvinnugreinar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert