Tíu ára fangelsi í Papeyjarmálinu

Skútan Sirtaki var notuð við smygltilraunina.
Skútan Sirtaki var notuð við smygltilraunina. mbl.is/Helgi Garðarsson

Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í tíu ára fangelsi fyrir skipulagningu og innflutning mikils magns fíkniefna til landsins með skútu í apríl síðastliðnum. Fjórir karlmenn til viðbótar voru dæmdir í þriggja til níu ára fangelsisvist. Fullvíst þykir að dóminum verði áfrýjað af hálfu allra sakborninga.

Höfuðpaurarnir í Papeyjarmálinu svonefnda, Hollendingurinn Peter Rabe og Rúnar Þór Róbertsson, voru dæmdir í tíu ára fangelsi fyrir þátt sinn. Árni Hrafn Ásbjörnsson sem einnig var handtekinn um borð í skútunni Sirtaki í apríl sl. var dæmdur í níu ára fangelsi.

Jónas Árni Lúðvíksson, Halldór Hlíðar Bergmundsson og Pétur Kúld Pétursson hlutu fimm ára, þriggja og þriggja og hálfs árs dóm. Þeir voru handteknir í landi með 55 kg af amfetamíni, 53 kg af kannabis og 9.400 e-töflur. Tveir þeirra sigldu til móts við skútuna, tóku á móti efnunum og færðu í land.

Höfuðpaurarnir þrír neituðu allir sök og sögðust hafa verið á skemmtisiglingu þegar þeir voru beðnir um að snúa til Íslands af Landhelgisgæslunni. Hinir þrír játuðu hins vegar sök að því leyti, að þeir samþykktu að taka á móti sterum.

Einn þeirra viðurkenndi að hafa séð tvo höfuðpauranna um borð í skútunni 18. apríl sl. þegar farið var til móts við hana innan við 30 sjómílur suð- austur af landinu. Efnin voru þar flutt milli báta og siglt með efnin til Djúpavogs.

Þáttur höfuðpauranna, Rabe, Rúnars Þórs og Árna Hrafns var talinn jafn en mismunandi refsivist skýrð með ólíkum sakaferli.  Árni Hrafn átti aðeins minniháttar brot að baki.

Munurinn á refsingu hinna þriggja er skýrð þannig að Jónas Árni fékk Halldór Hlíðar og Pétur Kúld til verksins. Halldór Hlíðar hlaut svo lægstu refsinguna sökum þess hversu hjálpsamur hann var við að upplýsa um aðild annarra, en hann var lykilvitni í málinu og bar gegn öðrum sakborningum.

Þó svo að dómurinn teldi ekkert hafa komið fram sem sannaði að þeir hafi ekki talið sig vera að taka móti sterum kærðu þeir sig kollótta um efnismagnið og efnistegund, þar sem þeir athuguðu ekki hvað efni var um að ræða. Auk þess átit þeim að vera ljóst að efnið var flutt til landsins í söluskyni.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka