Hörður Barðdal, endurskoðandi og frumkvöðull íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi, lést á Landspítalanum við Hringbraut 4. ágúst sl., 63 ára að aldri. Hörður fæddist í Reykjavík 22. maí árið 1946, sonur Óla S. Barðdal, f. 1917, d. 1983, forstjóra Seglagerðarinnar Ægis, og Sesselju Guðnadóttur Barðdal, f. 1920, sem lifir son sinn.
Níu ára að aldri fékk Hörður lömunarveiki en lét það aldrei aftra sér í leik og starfi. Á árunum 1965-1970 lék hann með KR í sundknattleik ófatlaðra og varð nokkrum sinnum Íslands- og Reykjavíkurmeistari í þeirri grein. Einnig var hann um tíma sundþjálfari hjá KR.
Hörður sat í stjórn Íþróttasambands fatlaðra fyrstu árin, eða til 1986. Hann var einn af fyrstu keppendum Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og keppti í sundi á Norðurlandamóti fatlaðra árin 1976 og 1977, þar sem hann vann til brons- og silfurverðlauna. Var valinn fyrsti íþróttamaður fatlaðra, árið 1977, en sundferlinum lauk hann á Ólympíuleikum fatlaðra í Hollandi árið 1980. Eftir það var hann oft í fararstjórn á stórmótum, m.a. Vetrarólympíuleikum fatlaðra í Lillehammer árið 1994, en Hörður var hvatamaður að stofnun vetraríþróttastarfs fatlaðra hér á landi. Þá var hann meðal stofnenda Golfsamtaka fatlaðra fyrir nokkrum árum, í samstarfi við Golfsamband Íslands, og formaður samtakanna til dauðadags.
Hörður kvæntist Soffíu Kristínu Hjartardóttir árið 1980 en hún lést í nóvember árið 2007. Störfuðu þau lengi saman á endurskoðunarskrifstofu föður Soffíu, Hjartar Pjeturssonar, en Hörður vann einnig við endurskoðun fyrir Seglagerðina Ægi og fleiri fyrirtæki.
Hörður eignaðist þrjár dætur með fyrri eiginkonu sinni, Bergþóru Sigurbjörnsdóttur, þær Jóhönnu, Sesselju og Bergþóru Fanneyju Barðdal. Stjúpsonur er Þórður Vilberg Oddsson, sonur Soffíu. Barnabörnin eru níu talsins.