Flest bendir til að þjóðhagslega hagkvæmt verði að ráðast í stóriðjuframkvæmdir á Íslandi á næstu árum, en tímasetningar slíkra framkvæmda skipta miklu máli hvað varðar þjóhagslegan ávinning. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Iðnaðarráðuneytið fól Hagfræðistofnun HÍ á síðasta ári að
skrifa skýrslu um hagrænt mat á áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt
efnahagslíf undir yfirskrifitinni „Áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf“.
Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að með verkefninu sé brugðist við ítrekuðum ábendingum og athugasemdum
varðandi áhrif stóriðjuframkvæmda í skýrslum OECD um íslensk
efnahagsmál á undanförnum árum.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
- Sökum þess hve hlutfallslegt umfang stóriðjuframkvæmda er mikið í hagkerfinu og þeirrar staðreyndar að hér hefur lengstum verið því sem næst fullt atvinnustig skipta tímasetningar slíkra framkvæmda miklu máli hvað varðar þjóðhagslegan ávinning. Sé ráðist í slíkar framkvæmdir á þensluskeiði getur þjóðhagslegur ábati orðið neikvæður eða lítill en mikill sé framkvæmt á þeim tímum þegar slaki er í hagkerfinu.
- Auðveldari aðgangur að erlendu vinnuafli nú en áður gerir það að verkum að áhrif framkvæmda á vinnumarkað eru þjóðhagslega minni en oft áður. Fyrir vikið er auðveldara að rýma til fyrir þessum framkvæmdum á vinnumarkaði með því að flytja inn erlent vinnuafl. Á móti kemur að sveiflur í heildarfjölda vinnandi á markaði verða meiri vegna stóriðjuframkvæmda nú en áður sökum þessa.
- Þrátt fyrir að hlutfallslegt umfang stóriðju í hagkerfinu hafi vaxið mikið á síðustu áratugum er það enn svo að sveiflujafnandi áhrif stóriðju í rekstri á hagsveiflur eru mikil. Aukin notkun áhættuvarna álfyrirtækja vegna sveiflna í álverði gerir það einnig að verkum að hingað til hafa sveiflujafnandi áhrif greinarinnar verið vanmetin.
- Flest bendir til að þjóðhagslega hagkvæmt verði að ráðast í stóriðjuframkvæmdir á næstu árum. Ástæðurnar eru þær að útlit er fyrir slaka í hagkerfinu á þessu tímabili auk þess sem ætla má að slíkar framkvæmdir muni hafa jákvæð áhrif á íslenskan vinnumarkað. Vegna þessa slaka er trúlegt að ruðningsáhrif slíkra framkvæmda verði minni en ella. Eigi að síður er nauðsynlegt að gaumgæfa vandlega þau áhrif sem fjárfestingar í stóriðju og orkuverum geta haft á gengi íslensku krónunnar á fjárfestingartímanum.
- Mikilvægt er að meta raunkostnað af stóriðjuframkvæmdum. Slíkt verður ekki gert nema að í slíkum kostnaðarútreikningum sé litið til efnahagslegs virðis þess lands og umhverfis sem nýtt er til rafmagns- og álframleiðslu. Einnig þarf að taka tillit til áhættu í kostnaðarútreikningum. Í þeim útreikningum sem hér fara á eftir er hvorki horft til umhverfisverðmæta né áhættu.
- Almennt er gerð sú krafa til opinberra framkvæmda að áhætta þeirra sé minni en einkaframkvæmda. Í einkafyrirtækjum geta einstakir hluthafar selt eign sína og komið sér þannig undan áhættu. Sökum þess hve opinberir aðilar eiga stóran hluta í orkufyrirtækjum landsins má færa fyrir því rök að draga beri úr áhættu almennings af rekstrinum. Ein leið er að auka hlut einkaaðila í orkuframleiðslu og með tilliti til stöðugleika væri heppilegt að erlendir aðilar kæmu í auknum mæli að orkuframleiðslu og sölu. Á móti væri hægt að gera kröfu um að innlendir aðilar ættu hluta í þeim stóriðjuverum sem hér verða reist.
- Hvað varðar langtímanýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar skiptir miklu að skilgreina réttindi eigenda þeirra auðlinda og jarðnæðis sem hér um ræðir. Samkvæmt lögum frá vorinu 2008 um orkuauðlindir er gert ráð fyrir að hægt sé að leigja nýtingu þeirra. Til að tryggja þjóðhagslega hagkvæmni nýtingarinnar þarf að tryggja að leigutíminn sé sem lengstur og að möguleikar á því að endurskilgreina nýtingarmöguleikana séu til staðar.