Fréttaskýring: Magma kaupir upp hluti sveitarfélaga í HS Orku

mbl.is/Guðmundur Rúnar

„Þegar þú átt 0,3% hlut í svona stóru fyrirtæki eins og HS Orku og getur af þeim sökum ekki haft mikil áhrif á starfsemi þess, þá má segja að aðgangsmiðinn á aðalfundinn sé óþarflega dýr. Við í bæjarráði höfum ekki tekið neina afstöðu hingað til hvort við ætlum að selja hlut okkar en ég reikna með að við leggjumst yfir það mál núna í vikunni,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.

Hann segir að ráðgjafarfyrirtækið Arctica Finance hafi haft samband við sveitarfélögin sem eiga HS Orku í vor og spurt hvort eignarhlutar þeirra væru til sölu. „Við tókum enga afstöðu þá en nú verður þetta skoðað,“ segir Ásmundur.

Á föstudag ákvað stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að ganga til viðræðna við kanadíska fyrirtækið Magma Energy um kaup fyrirtækisins á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Orkuveita Reykjavíkur keypti 16,5% hlut í Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 og skuldbatt sig jafnframt til að kaupa um 15% til viðbótar af Hafnarfjarðarbæ. Því er um að ræða um 32% hlut í fyrirtækinu. Magma Energy á fyrir um 11% hlut í HS Orku sem fyrirtækið keypti af Geysi Green Energy í júlí. Samkvæmt þeim samningi mun Magma jafnframt geta aukið hlut sinn um 5% þegar auknu hlutafé verður veitt inn í HS Orku. Ef fyrirtækið kaupir hlut Orkuveitu Reykjavíkur mun Magma Energy því samtals eiga 43% hlut í HS Orku og eiga möguleika á að auka hann upp í 48% með frekara hlutafé.

125 milljónir fyrir 0,3%

Sveitarfélagið Vogar á um 0,1% hlut í fyrirtækinu en að sögn Róberts Ragnarssonar, bæjarstjóra, hefur enn ekki verið ákveðið að selja hlutinn. „Ég geri þó ekki ráð fyrir öðru en að við fundum um þetta mál í vikunni.“ Grindavíkurbær á um 0,5% hlut og Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri segir að ekki hafi enn verið tekin afstaða til hvort selja eigi hlutinn. „Ég tel þó eðlilegt að við skoðum það mál.“ Gangi öll þessi kaup eftir er ljóst að HS Orka stefnir hraðbyri í að verða í einkaeigu erlendra og innlendra aðila. Magma Energy og Geysir Green Energy munu þá eiga um helmingshlut hvort á móti öðru.

Í samtali við Morgunblaðið þann 8. júlí sagði Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, að fyrirtækið ætlaði sér ekki að verða ráðandi aðili í HS Orku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert