Vill fund með fjármálaráðherra

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Guðlaugur Gylfi Sverrisson,  hefur óskað eftir fundi með fjármálaráðherra vegna sölu á hlutabréfum í HS Orku. Mikilvægt sé að fá upplýst hvort ríkið hafi áhuga á að eignast hlutinn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Guðlaugi.

„Yfirlýst andstaða umhverfisráðherra og annara fulltrúa VG stangast á við afstöðu iðnaðarráðherra sem telur heppilegt að þessi sala fari fram. Í því ljósi er mikilvægt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur að vita hvort ríkið hafi raunverulegan áhuga á að eignast umræddan hlut eða ekki.

Samkeppnisyfirvöld hafa úrskurðað að Orkuveitan megi ekki eiga meira en 10% hlut í fyrirtækinu og í ljósi þess hefur hluturinn verið auglýstur til sölu. Söluferlið hefur verið opið og hefur ríkið eins og aðrir áhugasamir aðilar haft alla möguleika á því að koma að því borði.

Nú liggur fyrir kauptilboð sem þarf að taka afstöðu til og því afar mikilvægt að ríkisstjórn Íslands svari því afdráttarlaust hver vilji hennar er í málinu," að því er segir í yfirýsingu frá Guðlaugi Gylfa Sverrisyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka