Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Fjármálaráðuneytið leitar nú allra leiða til að tryggja opinbera eigu á eignarhlut Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í HS orku, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Meðal annars hefur verið rætt um að Reykjavíkurborg, íslenska ríkið og RARIK ohf. kaupi saman um 22 prósent af eignarhlut Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í HS orku.
Auk þess hefur verið rætt um að opinberir aðilar nýti með einhverjum hætti forkaupsrétt sinn, í gegnum OR, á þeim hlut í HS orku sem Reykjanesbær seldi Geysi Green Energy (GGE) og Magma Energy fyrr í sumar, en forkaupsrétturinn rennur út 24. september. Málið verður að öllum líkindum rætt á ríkisstjórnarfundi í dag en þröng fjárhagsstaða hins opinbera flækir það enn frekar.
Guðlaugur Gylfi Sverrisson og Hjörleifur Kvaran, stjórnarformaður og forstjóri OR, gengu á fund Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra síðdegis á miðvikudag ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra í Reykjavík. Ekki hefur verið upplýst opinberlega um hvað var rætt á fundinum en heimildir Morgunblaðsins herma að þar hafi verið ræddar mögulegar leiðir til að halda 32 prósenta hlut OR og Hafnarfjarðar í HS orku í opinberri eigu, en kanadíska jarðvarmafyrirtækið Magma Energy hefur lagt fram tilboð í hlutinn.
Ein þeirra leiða sem skoðuð er í fjármálaráðuneytinu er að OR haldi eftir tíu prósenta hlut sínum í HS orku, en OR má ekki eiga meira í fyrirtækinu samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins frá því í fyrra. Hin 22 prósentin gætu þá mögulega orðið í eigu Reykjavíkurborgar, stærsta eiganda OR, íslenska ríkisins og RARIK ohf., sem er í opinberri eigu.
Vert er að taka fram að um hugmyndir var að ræða en ekki tillögur. Niðurstaða fundarins varð þó sú að óska eftir svarfresti við tilboði Magma Energy til 31. ágúst. Sá frestur fékkst í gær.