Kartöflubændur hyggjast eiga fund með Jóni Bjarnasyni landbúnaðarráðherra vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna uppskerubrestsins í Þykkvabænum, sem er helsta kartöfluræktarhérað landsins.
Bergvin Jóhannsson, bóndi á Áshóli í Eyjafirði og formaður Landssambands kartöflubænda, segir að bændur séu að byrja að taka upp kartöflur til að setja í geymslur. Segir Bergvin að það muni ekki skýrast fyrr en líður á septembermánuð hve tjónið verður mikið hjá bændum í Þykkvabænum. Þegar það liggi fyrir, muni landssambandið óska eftir fundi með ráðherra. „Við vitum ekki á þessari stundu hvort einhver úrræði eru fyrir hendi,“ segir Bergvin. Fram hefur komið í fréttum að tjón kartöflubænda í Þykkvabænum verði tæplega undir 250 milljónum króna.
Næturfrost gerði í Þykkvabænum 24. og 25. júlí og féll þá mjög mikið af grösum. Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ segir að fljótlega eftir það hafi byrjað að rigna og ágætis væta og hiti hafi verið allan ágústmánuð. Í sumum görðum, þar sem eitthvað lifði af kálinu, hafa grös aðeins tekið við sér. „Þar sem ástandið var verst byrjaði að spretta nýtt kál og þá gerðist ekkert niðri í jörðinni á meðan,“ segir Sigurbjartur. Kartöflubændur hafa tekið upp kartöflur í rúman mánuð og sent í verslanir. Nú eru menn að byrja að taka upp til að setja í geymslur. Segir Sigurbjartur að líklega sé ástandið heldur verra en menn héldu fyrst í stað og svo gæti farið að uppskeran yrði aðeins um 20% af því sem er í venjulegu árferði.
Sigurbjartur segir að sumir akrar séu svo illa farnir að ekki taki því að setja á þá upptökuvélar. Það taki því einfaldlega ekki að taka upp úr þeim. „Þarna er bara smælki undir, berjarusl sem er einskis virði,“ segir Sigurbjartur. Hann segir að frostið í vetur muni drepa allt í görðunum og næsta vor verði þeir undirbúnir fyrir uppskeru eins og venjulega.
Bergvin Jóhannsson segir að útlit sé fyrir að uppskeran í Eyjafirði verði í góðu meðallagi. Sömu sögu sé að segja frá Hornafirði. Fremur þurrt var fyrri part sumars í Eyjafirði og sprettan lítil en veður hefur verið hagstætt seinni hluta sumars. Hann segir að Eyfirðingar hafi sloppið við frost. Um helgina hafi séð örlítið á grasi en ekkert tjón hlotist af. Bændur í Eyjafirði hafa eins og starfsbræður þeirra í Þykkvabænum verið að taka upp kartöflur til að setja á markað. Um helgina verður byrjað að taka upp kartöflur til að setja í hús.
Verslanirnar annast sjálfar innflutninginn en á árum áður hafði ríkisrekið fyrirtæki, Grænmetisverslun landbúnaðarins, einkarétt á því að flytja inn kartöflur, og þeir eru eflaust margir sem muna þá tíma. Oft blossaði upp óánægja með þær kartöflur sem í boði voru og hún náði hámarki vorið 1984, þegar fyrirtækið flutti inn kartöflur frá Finnlandi. Margir töldu þessar kartöflur óætar og jafnvel sýktar.
Neytendasamtökin gengust fyrir undirskriftasöfnun þar sem rannsóknar var krafist og jafnframt skorað á stjórnvöld að gefa innflutning á kartöflum og öðru grænmeti frjálsan. Undir þessa áskorun skrifuðu 20 þúsund manns. Í framhaldinu var einokuninni aflétt. „Finnsku kartöflurnar höfðu orðið banabiti þessa forna fjandmanns íslenskra neytenda,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.