HS Orka greiðir hærra auðlindagjald en þekkist

Auðlindagjald Reykjanesbæjar mun hærra ení öðrum sveitarfélögum. Reykjanesbær fór vel yfir gjöld annarra sveitarfélaga áður en samningur var gerður við HS Orku.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að nauðsynlegt sé vegna tíðra ummæla í fjölmiðlum um að auðlindagjald það sem samningur milli Reykjanesbæjar og HS Orku geri ráð fyrir sé lágt, sé mikilvægt að leiðrétta nokkur atriði.

Í yfirlýsingunni segir: Upplýsingar sem aflað var við undirbúning að nýtingargjaldi á náttúruauðlindum sem Reykjanesbær innheimtir af HS Orku hf.,  benda allar til að gjaldið sem Reykjanesbær innheimtir sé það hæsta sem greitt er hér á landi. Auk Íslands voru skoðaðir sambærilegir samningar frá  Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Filippseyjum og Evrópu.

Hitaveitur á Íslandi eru almennt að greiða 0,75% eða lægra til landeigenda. Landsvirkjun hefur gert samninga á svipuðum nótum.
Talið var mikilvægt að fara vel yfir þetta því samningarnir gætu verið mikilvægt fordæmi fyrir aðra, m.a. sveitarfélög,  sem myndu nýta sér þetta form þegar þau heimiluðu afnot af landi til auðlindanýtingar.

Niðurstaða Reykjanesbæjar og HS Orku var að almennt skuli miða við auðlindagjald sem er um 2,5% af heildarsölutekjum raforku. Selta, útfellingar og niðurdæling, eru tekin inn í reiknidæmið og hefur þau áhrif að tekjustofn auðlindagjaldsins er 2,1% -2.5% á Reykjanesi.

Af þessu er augljóst að HS orka er að greiða hærra auðlindagjald til Reykjanesbæjar en þekkist hér á landi og ríkið hefur sjálft hingað til innheimt.
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lýsti því yfir í gærkvöldi að ef ný nefnd sem ríkið hefur skipað til að fara yfir orkunýtingarsamninga leiðir til breytinga sem eru hagstæðari en núverandi samningur Reykjanesbæjar, sé fullur vilji til að endurskoða samningana í samstarfi við HS Orku hf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert