Viðunandi niðurstaða

Meirihluti borgarráðs styður sölu á þriðjungs hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til Magma Energy og segir samninginn viðunandi fyrir OR og Reykjavíkurborg.

Salan var rædd á fundi borgarráðs í morgun. Formaður borgarráðs tilkynnti við upphaf fundar að málið yrði afgreitt á næsta fundi borgarráðs til að gefa borgarráðsfulltrúum góðan tíma til að fara yfir málið. Málið verður því tekið aftur fyrir á fundi borgarráðs í  næstu viku og til endanlegrar staðfestingar í borgarstjórn þriðjudaginn 15. september.

Borgarráðsfulltrúar meirihlutans styðja söluna á hlutum OR í HS Orku og byggja afstöðu sína á eftirfarandi rökum:

  • Niðurstaðan eftir rúmlega hálfs árs söluferli Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku er góð fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur hennar. Með samkomulaginu er orðið við kröfu samkeppnisyfirvalda um að OR minnkaði eignarhlut sinn í HS Orku og einnig bundinn endi á tæpra tveggja ára ágreining við Hafnarfjarðarbæ, sem hefur verið fyrir dómstólum. Ákvörðun stjórnar OR var tekin eftir að fyrirtækið og Magma Energy gáfu ríkisstjórn Íslands frest til að kanna hugsanlega aðkomu hennar að viðskiptunum, en ríkið hefur eins og aðrir haft rúma sjö mánuði til að koma að málinu.
  • Tilboðið er mjög ásættanlegt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og niðurstaðan fjárhagslega góð fyrir félagið. Samningurinn er metinn á um 12 milljarða króna. Er það fagnaðarefni að erlendir aðilar hafi áhuga á því að koma með fjármagn inn í landið sem hægt er að nota í jákvæða uppbyggingu.
  • Með sölunni er verið að uppfylla úrskurð samkeppnisyfirvalda, sem kveður á um að OR getur ekki átt hlut sinn í HS Orku. Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að eignarhlutur OR í HS sé í andstöðu við samkeppnislög og því þarf Orkuveitan að selja. OR hafði þegar fengið frest á sölunni til samkeppnisyfirvalda en samkeppniseftirlitið hefur sagt að hagsmunir OR af því að fá hátt verð fyrir eignarhlut sinn breyti með engum hætti niðurstöðum þess varðandi hin samkeppnislegu vandamál. Ekkert bendir til þess að lengri frestur muni leiða til annarrar niðurstöðu í málinu en nú stefnir í.
  • Með sölunni er einnig verið að leysa ágreining við Hafnarfjarðarbæ og losar OR sig frá þeirri áhættu að þurfa að leysa til sín hlut Hafnarfjarðarbæjar um áramót samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur en þann hlut má OR heldur ekki eiga.
  • Ekki er verið að selja auðlindir. Viðskiptin ná aðeins til samanlagðs hlutar í HS Orku, það er orkuframleiðsluhluta fyrirtækisins, en hvorki eignarréttar á auðlindum né einkaleyfisstarfseminnar. Eins og iðnaðarráðherra hefur bent á eru hagsmunir almennings ekki í hættu þótt einkafyrirtæki eignist hlut í orkuframleiðslufyrirtækjum.
  • Pólitískum reikningsaðferðum Samfylkingarinnar er vísað á bug. Ytri endurskoðendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa yfirfarið og staðfest útreikninga og mat fjármálasviðs OR á virði samningsins við Magma Energy og auk þess hefur fjármálastjóri Reykjavíkurborgar bent á villur í reikningsaðferðum fulltrúa Samfylkingarinnar, sem fela í sér vanmat á framtíðarvirðinu.
  • Söluferlið hefur verið langt, gagnsætt og vandað. Stjórn OR ákvað á fundi sínum 19. desember 2008 að selja 16,58% eignarhlut fyrirtækisins í Hitaveitu Suðurnesja og fól stjórnin stjórnarformanni og forstjóra að leita eftir tilboðum og var haft samráð við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um söluna. Salan hefur fengið ýtarlega umfjöllun á fundum stjórnar OR. Aðdragandi afgreiðslunnar er því langur, málsmeðferð vönduð og umræður ýtarlegar.
  • Ekki er verið að halda tilveru eða innihaldi samningsins leyndu enda hafa samningarnir verið birtir á vefsíðu OR. Að ósk meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur var heimildar Magma Energy leitað fyrir birtingu samnings OR við fyrirtækið og fékkst hún.
  • Tillögu VG á fundi borgarráðs í dag um að viðræður við ríkisvaldið með það að markmiði að HS Orka verði alfarið í opinberri eigu var vísað frá með bókun meirihlutans:

„Stjórn OR ákvað á fundi sínum 19. desember 2008 að selja hlutinn í HS Orku og hefur söluferlið verið langt og málsmeðferð vönduð. Ríkið hefur því eins og aðrir haft rúmt hálft ár til að koma að málinu en sýndi því ekki áhuga fyrr en komið var að því að afgreiða tilboð Magma Energy. Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur hafði þá strax frumkvæði að viðræðum við ríkisvaldið um kaup á hlut OR í HS Orku. Eftir beiðni OR veitti Magma Energy frest á kauptilboði sínu þannig að ríkisstjórnin gæti kannað hugsanlega aðkomu hennar að viðskiptunum en þegar fresturinn var liðinn var ljóst að af henni verður ekki. Fjármálaráðherra hefur greint frá því að tíminn hafi ekki verið nægur, en ljóst er einnig af umfjöllun síðustu vikna að lítil samstaða er um það milli ríkisstjórnarflokkanna hvort ríkið eigi að beita sér gegn tilboðinu eða yfirleitt gerast eigendur. Markmið stjórnar OR með sölunni er ekki að einkavæða HS Orku heldur sá að virða úrskurð samkeppnisyfirvalda, leysa ágreining við Hafnarfjarðarbæ, styrkja fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og tryggja að fjárhagsskuldbindingar lendi ekki á Reykvíkingum. Þessi sala kemur hins vegar ekki í veg fyrir að ríkið geti eignast meirihluta í HS Orku. sé það vilji ríkisvaldsins. Tillögunni er því vísað frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka