Magnús Árni Skúlason hefur ákveðið að fara þess á leit við Alþingi að sér verði veitt lausn frá störfum sem bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands. Í yfirlýsingu frá Magnúsi segir ákvörðunina tekna þar sem störf hans hafi opinberlega verið gerð tortryggileg með ómaklegum hætti.
„Morgunblaðið hefur nú kosið að varpa rýrð á störf mín sem bankaráðsmanns með vísan í að ég hafi komið á fundi íslenskra fyrirtækja með erlenda fjármálafyrirtækinu „SchneiderFX“. Rétt er að minna á að Schneider hafði samband við mig að fyrra bragði og ekkert ólöglegt athæfi hefur átt sér stað, eins og Morgunblaðið tekur raunar sérstaklega fram,“ segir í yfirlýsingu Magnúsar.
Magnús segist einnig hafa varið þorra tíma síns undanfarið ár í að reyna að draga úr þeim áföllum sem riðið hafa yfir íslenskt þjóðarbú, s.s. með því að hafa haft frumkvæði að því að fá til landsins fjölmarga sem lagt hafa Íslendingum lið á alþjóðavettvangi. „Eina markmiðið hefur frá upphafi verið að leggja mitt af mörkum sem Íslendingur, til endurreisnar íslensku efnahagslífi.“
Magnús situr í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd Framsóknarflokksins.