Ósáttur við þungan dóm

Jónas Ingi Ragnarsson og Tindur Jónsson í Héraðsdómi Reykjaness.
Jónas Ingi Ragnarsson og Tindur Jónsson í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Eggert

„Menn geta ekki verið að „fabúlera“ um þetta og öll óvissa á að vera sakborningi í hag,“ sagði Brynjar Níelsson, verjandi Tinds Jónssonar sem sakfelldur var í dag fyrir amfetamínframleiðslu. Brynjar vísar til þess að dómurinn gefur sér að hægt hefði verið að framleiða 14 kg af hreinu amfetamíni sem aftur gæfi 353 kg af efninu.

Tindur var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir sinn þátt í málinu og var ekki gerður greinarmunar á þætti hans og Jónasar Inga Ragnarssonar sem var dæmdur í tíu ára fangelsi.

Bæði Brynjar og Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Jónasar Inga, ætla að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Burtséð frá því hversu ósáttur Brynjar er við sakfellingu skjólstæðings síns taki steininn úr þegar kemur að ákvörðun refsingar. Hann vísar til þess að í nýlegum dómi hafi tveir karlmenn verið dæmdir í sjö ára fangelsi fyrir að hafa í fórum sínum amfetamínvökva, sem hægt hafi verið að breyta í 14 kg af amfetamíni föstu formi. Í því máli hafi verið um fullframleitt efni að ræða. Í verksmiðjunni hafi hins vegar aðeins fundist upphafsefni, og Tindur ekki verið ákærður fyrir vörslur fíkniefna.

„Menn eru oft að verja þungar refsingar með hættueiginleikum efna. Þessi efni voru ekki tilbúin og þar af leiðandi ekki hættuleg ennþá. Það hlýtur að skipta máli við ákvörðun refsingar.“

Þá segir hann dóminn ekki gera greinarmun á þætti Jónasar og Tinds í framleiðslunni þrátt fyrir að Tindur hafi verið starfsmaður Jónasar.

Dómurinn í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert