Álfheiður verður heilbrigðisráðherra

Álfheiður Ingadóttir er nýr heilbrigðisráðherra.
Álfheiður Ingadóttir er nýr heilbrigðisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, verður næsti heilbrigðisráðherra. Þetta var samþykkt á þingflokksfundi Vinstri grænna sem lauk á öðrum tímanum í nótt. „Þetta er krefjandi verkefni sem ég tek við, þegar aðstæður eru mjög óvenjulegar. En ég er ekki verkkvíðin,” sagði Álfheiður þegar mbl.is ræddi við hana á heimili hennar í nótt að fundi loknum.
 
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gerði tillögu við þingflokkinn um að Álfheiður tæki embættið að sér og var hún einróma samþykkt. Formaðurinn bætti við að fleiri hefðu þó komið til greina, svo sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Mikilvægt hefði verið að tryggja kynjajafnvægi í ríkisstjórn.
 
Þingflokksfundur VG hófst laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöld. Á fundinum fékk Steingrímur  fullt umboð þingflokks síns til þess að leiða Icesave málið til lykta. Steingrímur sagði að slíkt væri þó undirorpið því, að fullnægjandi frágangur fengist á þeim atriðum málsins sem út af standa. Þar hafa fyrirvarar Breta og Hollendinga í málinu verið nefndir sérstaklega. Ef lending næst, sagði Steingrímur, mun málið svo koma aftur til stjórnar og þingflokka til afgreiðslu.
 
„Við munum koma þeim skilaboðum áleiðis að við viljum setjast aftur að samningaborðinu Það er vilji til þess að ljúka málinu náist ásættanleg niðurstaða í þeim efnum sem út af standa,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon sem telur formenn bæði Samfylkingar og VG nú hafa fullt umboð sinna þingflokka til að lenda málinu.
 
Steingrímur sagði að matsfyrirtæki fylgdust grannt með stöðunni á Íslandi og það væri ekki launungarmál að slíkt hefði sett pressu á stjórnvöld við að ljúka Icesave málinu sem allra fyrst svo fyrirtækin gæfu Íslandi og stöðunni hér hagfelldari einkunn en ella væri.
 
„Það er margt sem setur þrýsting á okkur til að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem eru til staðar,“ sagði fjármálaráðherra.
 
Um lendinguna í Icesave málinu sagði Álfheiður að mikilvægt væri að ljúka því máli sem og öðrum svo Íslendingar kæmust til betri tíðar. „Það var góður samhljómur innan VG um að ljúka Iceave málinu og eins að þetta ríkisstjórnarsamstarf héldi," sagði hún.
 

Steingrímur J. Sigfússon eftir fundinn í nótt.
Steingrímur J. Sigfússon eftir fundinn í nótt. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert