Spáð lækkandi verðbólgu

Árið 2010 mun einkennast af atvinnuleysi, neikvæðum hagvexti og lækkandi verðbólgu. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Jákvæðu hliðarnar í spánni eru að viðskiptajöfnuður verður jákvæður og að samdráttur í hagvexti verður mun minni á næsta ári en í ár.

Þjóðhagsspáin skiptir miklu máli þegar verið er að semja fjárlagafrumvarpið því að tölur um atvinnuleysi, verðbólgu og hagvöxt hafa áhrif á niðurstöðutölurnar. Þjóðhagsspáin er jafnan endurskoðuð áður en fjárlög eru samþykkt.

Útgjöld ríkissjóðs vegna atvinnuleysis voru 2,6 milljarða árið 2007, en fjárlagafrumvarp ársins 2010 gerir ráð fyrir að útgjöldin verði 29,2 milljarðar. Spáð er 10,6% atvinnuleysi á næsta ári, en 8,6% atvinnuleysi á þessu ári. Verðbólga verður líklega um 12% á þessu ári, en því er spáð að hún lækki verulega og verði um 5% á árinu. Þá er því spáð að kaupmáttur dragist saman um 11,4% á næsta ári eftir 10,4% samdrátt á þessu ári.

Viðskiptahallinn var gríðarlegur árið 2008, m.a. vegna hruns bankanna. Reiknað er með jákvæðum viðskiptajöfnuði á næsta ári, en fara þarf mörg ár aftur í tímann til að finna slíka niðurstöðu. Ástæðan fyrir jákvæðum viðskiptahalla er ekki síst sú að innflutningur hefur dregist saman um 50% á föstu verðlagi. Það hefur aftur þær afleiðingar að skatttekjur ríkissjóðs eru miklu minni en þær voru í  „góðærinu".

Helstu niðurstöður þjóðhagsspárinnar eru þessar:

  • Árið 2008 er áætlað að verg landsframleiðsla hafi aukist um 1,3% þegar djúp niðursveifla í innlendri eftirspurn í lok ársins var milduð af viðsnúningi í utanríkisviðskiptum. Árið 2009 er reiknað með að samdráttur landsframleiðslu nemi 8,4% sem endurspeglar fimmtungslækkun innlendrar eftirspurnar en áframhaldandi afgang vöru- og þjónustujöfnuðar. Árið 2010 er spáð að landsframleiðslan dragist saman um 1,9%, einkum vegna frekari samdráttar einkaneyslu á meðan auknar stóriðjuframkvæmdir vega upp á móti. Spáð er að viðsnúningur verði í efnahagslífinu árið 2011 þegar hagvöxtur verður 2,8%. Þá er gert ráð fyrir að einkaneysla nái jafnvægi og áframhaldandi aukningu stóriðjuframkvæmda og annarrar fjárfestingar.
  • Þrátt fyrir ört minnkandi halla á vöruskiptunum árið 2008 varð viðskiptajöfnuður neikvæður um 42% af landsframleiðslu vegna gríðarlegrar aukningar í halla á þáttatekjujöfnuði í kjölfar hruns bankanna. Árið 2009 er áætlað að viðskiptahallinn dragist hratt saman og verði 7% af landsframleiðslu, en að afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði endurspegli lágt raungengi krónunnar. Árið 2010 er því spáð að afgangur upp á 0,8% af landsframleiðslu verði á viðskiptajöfnuði og að 0,2% afgangur verði árið 2011 en reiknað er með að þáttatekjujöfnuður haldist neikvæður út spátímabilið.
  • Áætlað er að atvinnuleysi verði að meðaltali 8,6% af vinnuafli árið 2009 og að það nái 10,6% árið 2010 en lækki síðan í 9,0% af vinnuafli árið 2011.
  • Hægt hefur á hjöðnun verðbólgu það sem af er ári vegna veikingar á gengi krónunnar á fyrri hluta ársins. Áætlað er að verðbólga nemi 11,9% að meðaltali árið 2009. Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar haldist stöðugt yfir árið 2010 og að verðbólga verði 5,0% að meðaltali það ár en nær 2,5% í lok ársins. Árið 2011 er því spáð að verðbólga verði 2,3% að meðaltali.
  • Tekjur ríkissjóðs drógust hratt saman í lok árs 2008 samfara mikið auknum útgjöldum og tekjuhalli ríkissjóðs nam 13% af landsframleiðslu það ár. Árið 2009 er áætlað að halli verði á ríkissjóði sem nemi 17,2% af landsframleiðslu. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir miklu aðhaldi á komandi árum til að snúa ríkissjóði í afgang árið 2013 og hraða lækkun skulda ríkissjóðs.
  • Óvissuþættir sem snúa að þjóðhagsspánni eru margir og viðamiklir og tengjast afnámi hafta á gjaldeyrismarkaði, gengi krónunnar, Icesave máli, lánafyrirgreiðslu AGS og annarra landa, endurreisn bankakerfisins, fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja, ástandi á vinnumarkaði, fjárfestingu í orkuöflun og iðnaðarkostum, ESB aðild og ástandi alþjóðlegs efnahagslífs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert