Eftir Steinþór Guðbjartsson
Tvöföldun Suðurlandsvegar er efst á lista Vegagerðarinnar í sambandi við átak með aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun opinberra verkefna, en ljóst er að engar framkvæmdir í þessa veru hefjast á árinu.
Í stöðuleikasáttmálanum eru tiltekin fimm vegaverkefni sem skoða á sérstaklega, þ.e. tvöföldun Suðurlandsvegar, tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, Vaðlaheiðargöng, Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðaganga. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að unnið hafi verið að því að reikna út kostnað og hvar þessi verkefni standa í undirbúningi varðandi skipulag, umhverfismál og fleira. Arðsemisútreikningar séu á lokastigi en arðsemin sé grunnur að aðkomu lífeyrissjóðanna. Komi þeir að fjármögnuninni sé skilyrði að taka upp veggjöld á viðkomandi framkvæmd og eftir sé að finna flöt á þeim.
Hreinn segir að Suðurlandsvegurinn sé fremstur á blaði. Undirbúningur Vaðlaheiðarganga sé líka langt á veg kominn, en væntanlega liggi málið skýrar fyrir í næstu viku.
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að verkefni með aðkomu lífeyrissjóðanna megi ekki auka skuldir ríkissjóðs og verði að vera sjálfbær, en þau hefjist ekki í ár.