Eina stjórnarmynstrið sem er í augsýn

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi í kvöld.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við Sjónvarpið eftir umræður um stefnuræðu hennar á Alþingi í kvöld, að hún teldi núverandi stjórnarsamstarf það eina sem væri í augsýn.

„Stjórnarandstaðan hefur engar tillögur til að leysa vandann og við verðum að vinna okkur út úr þeim vandamálum, sem kunna að vera hjá okkur í augnablikinu," sagði Jóhanna. 

Hún sagði að allir hjá Vinstri grænum hefðu lýst því yfir að þeir vilji að þessi ríkisstjórn vinni áfram. „Því hljótum við að finna lausnir á því saman hvernig við getum stillt saman strengi; það þarf vissulega að gera það betur og við munum gera það í framhaldinu," sagði hún.

Þegar borin voru undir Jóhönnu ummæli Gunnars Helga Kristjánssonar, stjórnmálafræðings, í fréttum Sjónvarpsins í kvöld um að ríkisstjórnin væri í raun fallin og sé í gíslingu Ögmundar Jónassonar og nokkurra annarra þingmanna VG, svaraði hún að það væri ofsagt.

„Það síðasta sem ég heyrði í Ögmundi var þegar hann talaði við mig og óskaði eftir lausn frá störfum heilbrigðisráðherra, það er auðvitað rangt að ég hafi rekið hann eins og sumir eru að halda fram.  Hann sagði líka við mig að hann myndi styðja þessa ríkisstjórn þannig að ég hef enga trú á því að hann muni hafa þessa ríkisstjórn í gíslingu. Við þurfum bara að vinna saman til að finna leið út úr því að það séu stilltir betur saman strengir í ríkisstjórninni en virðist vera nú."

Það er mitt mat að þetta sé eina stjórnarsamstarfið sem er í augsýn. Stjórnarandstaðan hefur engar tillögur til að leysa vandann og við verðum að vinna okkur út úr þeim vandamálum, sem kunna að vera hjá okkur í augnablikinu," sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert