Hlutverk Alþingis ekki að stjórna án tillits til vilja þjóðarinnar. Þingið á að skynja og skilja vilja þjóðarinnar og einbeita sér að því að finna leiðir í samræmi við hann. Þing sem ekki skeytir um vilja þjóðarinnar og setur lög í samræmi við eigin geðþótta er útúrsnúningur á lýðræðinu. Þetta sagði Þráinn Bertelsson alþingismaður á Alþingi í kvöld, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.
Hann tók hins vegar fram að ekki væri í boði að snúa baki við Icesave-málinu og segja að það komi þjóðinni ekki við hvað einkafyrirtæki gerir í útlöndum. ,,Við sem þjóð berum ekki ábyrgð á því að glæpurinn var framinn," sagði Þráinn. Afleiðingarnar væru hins vegar vandamál sem við þyrftum að taka þátt í að leysa.
Sagði hann stöðu Íslendinga sífellt versna og versna í því máli og Hollendinga og Breta sífellt beita sér af meira og meira harðfylgi. Nú þyrfti að fá evrópska stórþjóð til að miðla málum í deilunni og Íslendingar þyrftu að tilkynna að Alþingi og þjóðin geti ekki gengið að samningunum. Jafnframt þurfi að lýsa því yfir að við viljum leysa deiluna með sanngirni. Þannig yrði öllum ljóst að Íslendingar vilji axla ábyrgð sína sem þjóð, en ekki tefla framtíð sinni í voða.
Þráinn gagnrýndi fjárlagafrumvarpið og sagðist vona að það væri prentvilla í því að skera ætti niður framlög til framfærslu aldraðra og öryrkja. ,,Við hljótum að geta byggt hér upp samfélag án þess að seilast ofan í veskið og ræna farlama ömmur okkar." Hann gagnrýndi einnig mikinn niðurskurð á framlögum til kvikmyndagerðar.
Þráinn sagði að framtíð þjóðarinnar velti á því hvort hún beri gæfu til þess að ákveða ða standa saman um að finna lausn á vandanum sem að henni steðjar. ,,Það þarf ekki miklar rannsóknir á Íslandssögunni til að komast að því hvaða framtíð bíðar þjóðar, sem getur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut."