Vill óráðsíu og græðgi burt

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðustóli á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðustóli á Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, að hún hefði skrifað skilanefndum bankanna bréf og krafist svara við því hvort farið sé eftir skráðum reglum og gegnsæju ferli í ákvörðunum um það hvaða fyrirtækjum, sem mörg séu tæknilega gjaldþrota, verði leyft að ganga í endurnýjun lífdaga.

„Ríkisstjórnin sættir sig ekki við annað en þarna sé allt uppi á borðinu og að jafnræði sé tryggt," sagði Jóhanna. 

Hún sagði að fólk vildi óráðsíuna og græðgina burt og völdin úr höndum þeirra sem grófu undan heilbrigðu viðskiptalífi og stjórnsýslu.

„Það vill ekki að sömu klíkurnar og hagsmunahóparnir sitji að kjötkötlunum eins og ekkert hafi í skorist. Almenningur, sem nú býr við atvinnuleysi og skert kjör, vill sjá breytingar eiga sér stað og sú krafa er fyllilega réttmæt. Þessi krafa snýr meðal annars að bönkunum," sagði Jóhanna. 

Hún sagði að Íslendingar væru þegar í miðju sársaukafullu uppgjöri. Rannsóknarnefnd Alþingis skili skýrslu sinni um ástæður hrunsins að mánuði liðnum og sagði Jóhanna, að skýrslunni verði fylgt fast eftir.

„Það er stefna ríkisstjórnarinnar að styðja rannsóknaraðila eftir mætti í vandasömu verki og það hefur verið gert með fjárframlögum, lagabreytingum og ýmsum öðrum ráðstöfunum.Það traust sem farið hefur forgörðum verður ekki endurheimt nema uppgjörið eigi sér stað á fullnægjandi hátt og þeir sem bera ábyrgð verði látnir axla hana. Sækja verður þá til saka sem sannað þykir að hafi framið misgjörðir og lögbrot. Það verður ekki hægt að ná sáttum í samfélaginu nema allt sé gert til þess að leiða sannleikann í ljós. Þar má ekkert undan draga."

Kalt mat að gera þarf upp Icesave-reikninganna 

Þá sagði Jóhanna, að  Icesave-málið væri hluti af uppgjörinu en það hefði reynst sér og öllum þungbært.

„Kalt hagsmunamat segir mér að við eigum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave reikningana. Ef við fáum ekki lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða vinaþjóðum og fjármagn á næstunni til þess að styrkja gjaldeyrisforðann, afnám gjaldeyrishafta frestast, gengi haldast veikt, vaxtalækkun tefjast, botninn detta úr lánshæfismati ríkisins sem hafa mun í för með sér mun dýrari endurfjármögnun lána. Þá mun endurreisn atvinnulífsins verða teflt í tvísýnu, atvinnuleysi stóraukast og þar með vandi heimlanna í landinu. Ef við viljum ekki einangrast sem þjóð og loka öllum samskiptaleiðum við alþjóðasamfélagið þá er okkur nauðugur einn kostur að leiða Icesave-málið til lykta. Það er þetta mat og hagsmunir fólksins í landinu sem ræður minni afstöðu. Þeir sem hrópa nú hæst og bjóða aðrar lausnir eru að stefna hagsmunum almennings hér á landi í hættu til lengri og skemmri tíma litið. Hér höfum við ekkert val. Þetta bið ég fólk að hafa í huga," sagði Jóhanna meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert