Merki um siðrof í þjóðfélaginu

Mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar Glitnis.
Mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar Glitnis. mbl.is/Júlíus

Greina má merki um visst siðrof, það er virðingarleysi fyrir fulltrúum ríkisvaldsins, á útrásartímabilinu, að því er segir í stöðuskýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið. Hins vegar bendi tölur til þess að hér ríki ekki almennt siðrof. Fram kemur í skýrslunni að leiða megi líkur að því að ef rannsóknin á bankahruninu gengur hratt, ef niðurstaðan er trúverðug og ef réttlætinu verður fullnægt þá muni það verða til þess að efla traust á stofnunum ríkisins.

Tortryggni í garð viðskiptalífsins

Í skýrslunni kemur fram að svo virðist sem dregið hafi úr trausti til tiltekinna stofnana á útrásartímabilinu svokallaða. „Myndin er hinsvegar hvorki einhliða né afgerandi. Fyrir það fyrsta virðist sem að íslenska þjóðin hafi búið að traustum grunni félagslegra tengsla og trausts í samfélaginu, bæði til stofnana og á milli samborgara. Þá virðist hafa dregið úr tíðni afbrota í flestum brotaflokkum en þeir brotaflokkar þar sem tíðnin óx mátti lesa sem merki um visst siðrof, þ.e. virðingarleysi fyrir fulltrúum ríkisvaldsins, og sem afleiðingu aukins ójafnaðar.

Þá bar á vaxandi tortryggni í garð viðskiptageirans vegna spillingar á árunum 2005-2009. Eins eru ekki komin öll kurl til grafar varðandi rannsókn á því hvort stórfelld efnahagsbrot hafi verið framin,"  segir í skýrslunni sem unnin var af Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun HÍ.

Vissar ríkisstofnanir biðu mikinn álitshnekki

Stofnanirnar tvær segja, að svo virðist sem vissar stofnanir ríkisvaldsins hafi beðið mikinn álitshnekki. Það eigi þó ekki við um allar stofnanir og ríkisvaldið sem slíkt. Eins bendi tölur um tíðni afbrota fyrir og eftir bankahrun að hér ríki ekki almennt siðrof. 

„Það er því ljóst að allt tal um almenna upplausn í íslensku samfélagi á ekki við rök að styðjast. Það þýðir þó ekki að íslenska þjóðin sé komin í var. Það eru nokkrir hlutur sem standa upp úr sem þarf að huga að. Það þarf að efla tiltrú almennings á stofnunum lýðræðisins og réttarkerfisins. Þá þarf að huga að umgjörð viðskiptalífsins til að draga úr grunsemdum um spillingu,"  segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert