Björgunarsveitin á Hvolsvelli hefur verið önnum kafin í morgun við að staga niður hús og lausamuni, að sögn lögreglunnar. Skyggni var að losna af veitingastað á Hvolsvelli og þak var að losna af fjósi inni í Fljótshlíð. Lögreglan sagði að allt lauslegt fyki sem fokið gæti.
Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum hafa einnig haft í nógu að snúast. Í nótt festu þeir þakplötur sem voru að fjúka. Þá fauk sendibíll á hliðina í Eyjum. Þegar fólk fór að fara á stjá í morgun og tók að birta bárust enn fleiri útköll. Þakplötur voru að losna og klæðning á húsi sem stendur autt.
Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum hafa ekki borist fleiri útköll síðustu mínúturnar. Óveðrinu er þó ekkert að slota. Á Selfossi fauk laust timbur á bíl og í morgun var björgunarsveit kölluð út á Eyrarbakka vegna þess að þak var að losna af húsi.