Ofsaveður á Kjalarnesi

Eins og þessar myndir frá Kjalarnesi bera með sér er ákaflega hvasst þar og eins og björgunarsveitamaðurinn Hólmar Þór Stefánsson segir í viðtali við mbl.is fýkur allt sem fokið getur.

Ekkert lát virðist vera á hvassviðrinu sem nú gengur yfir landið sunnan og vestanvert því er spáð að það gangi niður er líða tekur á daginn en skömmu eftir hádegi var enn mjög hvasst uppi á Kjalarnesi þar sem allt lauslegt fauk og meðal annars fór skilti inn um glerrúðu á barnaheimili þar.

Verkefnum björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu vegna veðursins hefur fjölgað ört og eru þau orðin um 30 talsins. Eru þau víða um höfuðborgarsvæðið. Til að mynda á Kjalarnesi þar sem m.a. þak er að fjúka af kjúklingabúinu Móum. Mikið lið var sent á staðinn en í ljós hefur komið að það dugar ekki til. Verið er að kalla út stórvirkar vinnuvélar til að fergja þakið. Gamli prestbústaðurinn við Brautarholt er fokinn út í veður og vind, m.a. er framhliðin farin úr honum. Á Valdastöðum í Kjós er þak að fjúka af gömlu fjósi og stendur skæðadrífa af drasli yfir íbúðarhúsið.
 
Í Reykjavík er þak að fjúka af stóru húsi við Köllunarklettsveg og borist hefur tilkynning um að þak sé að losna af háhýsi í Borgartúni.
 
10 hópar björgunarsveitamanna, eða um 40 manns, sinna nú þeim verkefnum sem fyrir liggja og verið er að bæta við fleira fólki eftir því sem þörfin eykst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert