Óttast um flotbryggju

Flotbryggjan í smábátalæginu.
Flotbryggjan í smábátalæginu. mbl.is/Árni Sæberg

Óttast er að flotbryggja í smábátalæginu í Reykjavíkurhöfn kunni að losna frá í óveðrinu sem nú er á höfuðborgarsvæðinu. Mjög hvasst er á hafnarsvæðinu og hafa eigendur báta reynt að binda þá betur niður.

Björgunarsveitarfólk á höfuðborgarsvæðinu hefur nú sinnt yfir 60 útköllum af ýmsu tagi í dag. Skæðardrífa af þakjárni gekk yfir Brautarholt á Kjalarnesi fyrir skömmu og kom hún frá gömlu refahúsunum í Hjassa sem er utarlega á Kjalarnesi. Björgunarsveitamenn reyna nú að hemja fokið. Auk þeirra eru tvær dráttarvélar á leið á staðinn til aðstoðar.

Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur einnig staðið í ströngu en þar hafa beiðnir um aðstoð verið um 30 talsins en veður hefur skánað talsvert þar undanfarna klukkustund.

Björgunarsveitin Tintron í Grímsnesi var kölluð út rétt fyrir klukkan fjögur í dag þegar þak var farið að losna af húsi í Sólheimum og einnig var Þorbjörn í Grindavík kölluð út þegar þakklæðning losnaði af íbúðarhúsi í bænum.

Járn hefur fokið af gömlum refahúsum í Grundarhverfi.
Járn hefur fokið af gömlum refahúsum í Grundarhverfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert