Árni Grétar Finnsson hrl. og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði lést í gær á Borgarspítalanum, 75 ára að aldri. Hann fæddist 3. ágúst 1934, sonur Finns Árnasonar, trésmíðameistara og bæjarverkstjóra á Akranesi, og Eyglóar Gamalíelsdóttur.
Árni varð stúdent frá VÍ 1955 og lauk cand. juris-prófi frá HÍ 1961. Sama ár stofnaði Árni eigin lögfræðiskrifstofu í Hafnarfirði og rak hana til ársins 2007. Hann var umsjónarmaður Sjóvátryggingafélags Íslands hf. í Hafnarfirði 1962-89.
Árni var alla tíð virkur í félagsstarfi. Hann var m.a. formaður Taflfélags Hafnarfjarðar, sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1957-67 og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1964-67. Árni var varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1962-66 og bæjarfulltrúi þar 1966-90.
Árni sat í stjórn Landsvirkjunar 1965-2005, í blaðstjórn Hamars áratugum saman sem og í stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Árni var mikill ljóðaunnandi og liggja eftir hann fjórar ljóðabækur sem út komu á árunum 1982-2006.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Sigríður Oliversdóttir. Þau eignuðust þrjú börn, Lovísu, Finn og Ingibjörgu.