Ákvörðun biskups gildir

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is/Skapti

„Hann [séra Gunnar Björnsson] getur auðvitað gert það sem hann kýs, en ákvörðun biskups gildir,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður Biskupsstofu. Gunnar lýsti því í vikunni yfir að hann hygðist hafa boðskap biskups, að að flytja hann til í starfi innan þjóðkirkjunnar, að engu. 

Gestur bendir á að biskup sé forstöðumaður kirkjunnar og hafi þar með ráðningarvaldið. „Sem slíkur hefur hann samkvæmt starfsmannalögunum heimildina m.a. til þess að flytja menn úr einu starfi í annað og það hefur hann gert,“ segir Gestur og vísar þar til 36. greinar laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Gestur minnir á að biskup hafi í bréfi sínu til séra Gunnars gert grein fyrir því þeirri ákvörðun sinni að flytja hann úr starfi sóknarprests Selfosskirkjusafnaðar í starf sérþjónustuprests á Biskupsstofu út skipunartíma hans hjá kirkjunni til ársins 2012.

„Biskup telur einfaldlega að það sé ekki hægt að halda uppi eðlilegu safnaðarstarfi á Selfossi meðan Gunnar gegnir þar embætti sóknarprests og því tekur hann þessa ákvörðun. Ef að Gunnar er ósáttur við þá ákvörðun þá getur hann auðvitað leitað til dómstóla með þau sín sjónarmið. En auðvitað tekur Gunnar sér ekki það vald að hann geti ráðið því hvort hann fer eftir því sem biskup hefur ákveðið eða ekki. Það vald hefur hann ekki,“ segir Gestur.

Í yfirlýsingu frá Gunnari sem hann las fjölmiðlum fyrr í vikunni sagðist hann hafa endursent bréf biskups og að í því hafi „enginn löggerningur framinn [verið framinn] heldur aðeins vangaveltur um mismunandi hugmyndir biskups og meðreiðafólks hans,“ eins og Gunnar orðaði það.

Aðspurður hver yrðu næstu skref segir Gestur málinu lokið af hálfu biskups. „Biskup er búinn að taka þá ákvörðun sem um er að ræða. Hann hefur samkvæmt starfsmannalögunum vald til að færa embættismenn til í starfi og það hefur hann gert og hann er búinn að tilkynna það og þá gildir sú ákvörðun. Meira er ekki um málið að segja.“


Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert