Vilja Óskar Hafstein áfram sem prest

Selfosskirkja
Selfosskirkja Mbl.is/ Kristinn

Stofnuð hefur verið Facebook-síða til stuðnings því að séra Óskar Hafsteinn Óskarsson taki að fullu við starfi sóknarprests í Selfosskirkju. Nú þegar hafa rúmlega 440 manns skráð sig á síðunni. Þetta kemur fram í bréfi sem stuðningshópur sr. Óskars Hafsteins Óskarssonar hefur ritað biskupi íslands. 

Í bréfinu er beint á að séra Óskar hafi á fáum vikum skapað það andrúmsloft sem Selfosskirkja þarfnis. „Hér er á ferðinni prestur, sem á stuttum ferli sínum, hefur heillað hvert mannsbarn sem á hann hefur hlýtt, með einstakri nálgun sinni á málefnin hvort sem um gleði- eða sorgarathafnir er að ræða. [...] Glaðværð og hjartnæmur persónuleiki þessa unga prests er eitthvað sem við þurfum nú á að halda,“ segir m.a. í bréfinu.

Þar kemur fram að það sé von bréfritara að fljótlega náist endanleg niðurstaða í málinu og „að íbúar Selfoss geti ALLIR nálgast þá ró og þann frið sem jafnan er að finna innan veggja kirkjunnar.“

 Bréf stuðningshóps sr. Óskars Hafsteins Óskarssonar til biskups Íslands er í heild sinni svohljóðandi: 

„Til Biskups Íslands.

     Að setjast niður og skrifa bréf er varðar málefni kirkjunnar ætlar að reynast okkur erfiðara en við bjuggumst við. Það er einhvern vegin þannig að þegar kirkjan á í hlut, að þá vill maður að allt sé gott, og að vandamál sem koma upp innan hennar, gufi bara fljótlega upp, leysist á farsælan hátt og að allt verði strax gott aftur.

     Þetta hefur ekki orðið raunin í okkar tilfelli þ.e. innan Selfosskirkju og er það miður. Ekki ætlum við að ræða þetta tiltekna mál sem upp er komið neitt sérstaklega og enn síður gerast einhverjir dómarar í því heldur einungis leggja þetta fram eins og það blasir við okkur.
     Ef sátt og samlindi á að ríkja á milli íbúa Selfoss og kirkjunnar þá fáum við ekki með nokkru móti séð,  annað en að nýr prestur verði að taka við af Sr. Gunnari.

     Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, sem nú hefur gegnt embættinu á óvissu tímum,  hefur á fáum vikum skapað það andrúmsloft sem kirkjan þarfnast. Hér er á ferðinni prestur, sem á stuttum ferli sínum, hefur heillað hvert mannsbarn sem á hann hefur hlýtt, með einstakri nálgun sinni á málefnin
hvort sem um gleði- eða sorgarathafnir er að ræða. Eftir margvíslegar athafnir innan kirkjunnar höfum við margsinnis rekið okkur á það, að verið er að tala um “prestinn”, og að undantekningarlaust er þar um hól í hans garð að ræða.  Glaðværð og hjartnæmur persónuleiki þessa unga prests er
eitthvað sem við þurfum nú á að halda.

     Á vefnum var fyrir skemmstu stofnuð svokölluð Facebook síða málefni þessu til stuðnings. Ekki vitum við hvort sóknarnefnd Selfosskirkju hefur
orðið þess áskynja og vildum við því með bréfi þessu beina ásjónum ykkar að þessari síðu því þar hafa fjölmargir einstaklingar óskað eftir því að Sr.
Óskar  taki að fullu við starfi sóknarprests í Selfosskirkju.  Þetta eru liðlega 450 manns og stækkar hópurinn jafnt og þétt.

     Það er von okkar að fljótlega náist endanleg niðurstaða í þessu máli og að íbúar Selfoss geti ALLIR nálgast þá ró og þann frið sem jafnan er að finna innan veggja kirkjunnar.

Kveðja. Stuðningshópur Sr. Óskars Hafsteins Óskarssonar.

http://www.facebook.com/group.php?gid=88664705691&ref=ts“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert