Sammála um nýtingu jarðvarma í Þingeyjarsýslum

Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Katrín Júlíusdóttir ráðherra, Bergur Elías Ágústsson …
Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Katrín Júlíusdóttir ráðherra, Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings og Guðrún María Valgeirsdóttir sveitarstjóri Skútustaðahrepps. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra skrifaði undir viljayfirlýsingu við Norðurþing, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit um orkunýtingu í Þingeyjarsýslum í dag. Telur Katrín það mikilvægt að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Í fréttatilkynningu kemur fram að um samstarf sé að ræða á sviði orkurannsókna, orkunýtingar og atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum. „Markmið þeirrar vinnu sem hefst í kjölfar undirritunarinnar er að skapa þær aðstæður að þann 1. október 2010 verði allri nauðsynlegri forvinnu lokið þannig að unnt verði að ganga til samninga við stóran orkukaupanda / orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum.

Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að velja einn eða fleiri trausta, ábyrga og fjárhagslega sterka aðila til samstarfs um atvinnuuppbyggingu sem byggir á hagnýtingu orkunnar frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Lögð verði áhersla á að orkan sem er að finna á háhitasvæðum í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi verði nýtt til að skapa nokkur hundruð bein varanleg störf í Þingeyjarsýslum," samkvæmt tilkynningu sem iðnaðarráðuneytið hefur sent frá sér.

Lífeyrissjóðir, Landsvirkjun og fleiri stofna fyrirtæki um orkurannsóknir

Skipuð verður verkefnisstjórn sem mun bera ábyrgð á leit að mögulegum samstarfsaðilum um atvinnuuppbyggingu. Í verkefnisstjórninni munu eiga sæti einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi þ.e. Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit, einn frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, einn frá iðnaðarráðuneytinu / Fjárfestingarstofu, einn frá Þeistareykjum ehf. og einn frá Landsvirkjun. Verkefnisstjórnin skal ljúka fyrstu athugun á mögulegum samstarfsaðilum fyrir 1. apríl 2010 og nýta svo tímann til 1. október 2010 til nánari viðræðna og samningagerðar við þá sem til greina koma.

Stefnt verður að stofnun nýs félags sem hafi það meginmarkmið að afla fjár til að ljúka áðurnefndum orkurannsóknum. Hluthafar félagsins verði lífeyrissjóðir, aðrir fagfjárfestar, Landsvirkjun, iðnfyrirtæki og mögulega sveitarfélögin á svæðinu.

Litskrúðugir hverir með brennisteinsútfellingum á Þeistareykjasvæðinu.
Litskrúðugir hverir með brennisteinsútfellingum á Þeistareykjasvæðinu. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert