„Þetta er allt að skella á og við opnum um leið og búðin verður tilbúin,“ segir Jón Gerald Sullenberger sem vonast til að geta opnað nýja lágverðsverslun sína innan nokkurra vikna.
Verið er að leggja lokahönd á innréttingar og vörurnar að koma til landsins. Búðin hefur fengið nafnið Kostur og segist Jón Gerald hæstánægður með nafnið sem sé alíslenskt og viðeigandi.
Kostur er til húsa að Dalvegi 10 í Kópavogi í um 1.900 fermetra húsnæði og segir Jón Gerald að búðin verði að mörgu leyti öðruvísi en Íslendingar eigi að venjast.