Aukakostnaður Orkuveitu Reykjavíkur vegna Hverahlíðarvirkjunar, afpöntun á Mitsubishi-aflvélum í virkjunina og tafir á stóru láni frá evrópska fjárfestingabankanum, tengjast ekkert nýlegum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um umhverfismat vegna Suðvesturlína og orkuskatta, eins og Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, hefur haldið fram. Kostnaðurinn og tafirnar eru afleiðingar hrunsins og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur verið lykilmaður í því að tryggja lán OR frá evrópska fjárfestingabankanum.
Þetta segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, sem segir að ummæli Guðlaugs séu meira í ætt við kosningabaráttu en nokkuð annað, þar sem hann hafi mikinn áhuga á sæti borgarfulltrúa fyrir Framsóknarflokkinn á næsta ári. Þar að auki sé Guðlaugur að rjúfa trúnað með ummælum sínum í fjölmiðlum.
„Með ummælum sínum er stjórnarformaðurinn að draga fram upplýsingar um samningaviðræður við Norðurál sem ræddar voru á stjórnarfundi á föstudaginn, þar sem beðið var um trúnað. Fullyrðingar stjórnarformannsins og fréttaflutningur Stöðvar 2 tengdur þeim, eru algerlega úr lausu lofti gripnar,” segir Þorleifur í tilkynningu.
Þorleifur segir að bankahrunið hafi stoppað umrædda lánveitingu, sem komið hafi verið vilyrði fyrir í September 2008. Bankinn hafi hætt við í júlí síðastliðnum. Síðan þá hafi staðið yfir samningaviðræður, sem fjármálaráðherra hafi komið að. Ekki síst sé það fyrir hans tilstilli sem lánið sé nú á leiðinni. ,,Hann sendir út nokkuð sem kallast letter of comfort,” segir Þorleifur í samtali við mbl.is og vísar þar í meðmælabréf sem Steingrímur gaf út fyrir Orkuveituna. Sagt hefur verið frá því í Morgunblaðinu að deilt var um orðalag á því meðmælabréfi í haust, þar sem ráðuneytið vildi tryggja að í því fælist engin ríkisábyrgð á láninu.
„OR hafði pantað 5 túrbínur en eftir hrunið var samið við Mitsubishi um það að fresta afhendingu þriggja þeirra í eitt ár. Vegna þessa varð OR að greiða tafabætur að upphæð einum milljarði króna en hver túrbína kostar um 5 milljarða.
Jafnvel þó að Orkuveitan fái lánið frá Evrópska fjárfestingarbankanum á eftir að fjármagna seinni helming Hverahlíðarvirkjunar og fullkomin óvissa er um það hvort það takist. Fáist ekki aukið fjármagn verður ekki farið í Hverahlíðarvirkjun að sinni.
Af þessum sökum er umræða um það í stjórn OR að framlengja frestun á móttöku túrbínanna þriggja eða hætta við kaupin og er von á fulltrúum frá við Mitsubishi hingað til lands til að ræða þau mál,” segir ennfremur í tilkynningunni frá Þorleifi.
Hann rekur ennfremur að viðræður við Norðurál um hærra orkuverð séu vegna fyrirvara OR um arðsemi virkjana. Fyrir því séu ýmsar ástæður, svo sem hærra verð á innfluttu efni, auk þess sem frágangur og auknar mengunarvarnir vegi þungt. Til dæmis lagning á öllum leiðslum í jörð. Þar að auki sé bæði óvissa um fjármögnun álversins og orkuna í það.
Í samtali við mbl.is segir Þorleifur þetta upphlaup Guðlaugs hafa verið svo ótrúlegt og fjarstæðukennt að ekki lítið út fyrir annað en að það sé ætlað sem innlegg í baráttuna fyrir sæti á lista Framsóknarflokksins í næstu kosningum.
„Enginn ofantaldra þátta tengjast ákvörðun um Suðvesturlínur, hvað þá meintum orkusköttum. Allt tal þar um er úr lausu lofti gripið og virðist stjórnast af annarlegum tilgangi stjórnarformannsins sem sagður er hafa mikinn áhuga á því að verða ofarlega á lista Framsóknarflokksins til næstu borgarstjórnarkosninga en gengið verður frá listunum í lok mánaðarins,” segir Þorleifur.