Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að frekara gengisfall íslensku krónunnar geti orðið fyrirtækinu erfitt.
Spurður hvort hætta sé á greiðsluþroti Orkuveitunnar, styrkist krónan ekki á næstunni, segir hann: „Ja hún má ekki veikjast mikið meira, við skulum orða það þannig. Opinberar spár gera nú ráð fyrir því að gengisvísitalan verði einhvers staðar í kringum 235 á þessu ári og næsta. Við þolum það. En þessi staða dregur kraftinn úr okkur eins og öðrum. Við ætluðum að hefjast handa við Hverahlíðarvirkjun, en hún er bara í biðstöðu í augnablikinu.“
Hjörleifur segist hafa miklar áhyggjur af skuldastöðu Orkuveitunnar, sem skuldar 227 milljarða, að mestu í erlendri mynt, en tekjur fyrirtækisins eru í krónum.