60 þúsund hafa sýkst af H1N1

Bólusetning gegn svínaflensu er víða hafin.
Bólusetning gegn svínaflensu er víða hafin. Reuters

Sóttvarnarlæknir áætlar að um 60 þúsund manns hafi sýkst af H1N1 inflúensu hér á landi en 20.000 skammtar af bóluefni  eru væntanlegir til landsins um helgina og þeim verður dreift strax til heilsugæslustöðva. Bólusetning  almennings ætti því að geta hafist víðast hvar strax eftir helgi, eins og ráð var fyrir gert en nokkur óvissa ríkti um hvort hægt yrði að standa við tímaáætlanir vegna tafa á afhendingu bóluefnis frá framleiðanda ytra.

Starfsmenn heilsugæslustöðva hafa frá því á mánudag tekið við pöntunum frá almenningi í bólusetningu en í ljósi tafa á afgreiðslu bóluefnis má ætla að endurskipuleggja þurfi biðlista á sumum heilsugæslustöðvum, að minnsta kosti, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

Gert er ráð fyrir að 18.000 skammtar af bóluefni til viðbótar berist hingað í lok næstu viku en í ljósi reynslunnar er rétt að hafa fyrirvara á að sú áætlun standist. Spurn eftir bóluefni um allan heim er mun meiri en sem svarar til afkasta við framleiðslu þess.

110 þúsund orðnir ónæmir fyrir inflúensunni

Yfir 50.000 manns hafa verið bólusettir gegn inflúensunni hér á landi, einkum sjúklingar í skilgreindum forgangshópum, þungaðar konur og fólk í öryggis- og lykilstörfum af ýmsu tagi. Hluti þess hóps sem gegnir skilgreindum lykilstörfum, bíður bólusetningar og verður bólusettur í næstu viku. 

Ef um 60.000 manns hafi sýkst af veikinni þá eru samtals yfir 110.000 manns orðnir ónæmir fyrir inflúensunni eða þriðjungur þjóðarinnar.

Inflúensufaraldurinn rénar nú hratt hérlendis, sem ekki síst skýrist af því hve margir hafa verið bólusettir.

Bólusetningin gengur afar vel og starfsmenn heilsugæslustöðva leggja hart að sér við umfangsmikið verkefni. Sóttvarnalæknir telur afar mikilvægt að landsmenn láti bólusetja sig við inflúensunni, þrátt fyrir að faraldurinn sé í rénun, til að draga úr líkum á nýjum faraldri á landinu síðar í vetur, að því er segir á vef landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka