Tvö látin úr svínaflensu

Tveir einstaklingar, 18 ára stúlka og 81 árs karlmaður hafa látist vegna staðfestrar inflúensu A(H1N1), svonefndrar svínaflensu, eða fylgikvilla í kjölfar sýkingarinnar. Stúlkan lést 19. október og maðurinn lést 20. nóvember, bæði voru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Í síðustu viku greindust samtals 250 einstaklingar með inflúensulík einkenni samkvæmt skráningu heilbrigðisþjónustunnar, sem er áframhaldandi fækkun tilfella miðað við undarfarnar vikur, að því er segir á vef landlæknisembættisins. Tilfellum fækkaði bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Áætlað að 60 þúsund manns hafi smitast

Frá 29. júní – 22. nóvember hafa alls 9456 einstaklingar greinst með inflúensulík einkenni, þar af eru 4323 karlar og 5133 konur. Enn greinast hlutfallslega fleiri börn í aldurshópnum 0–9 ára með inflúensulík einkenni, færri greinast í öðrum aldurshópum og eftir sextugt fækkar tilfellum verulega.

Áætlaður heildarfjöldi sýktra í samfélaginu er um 60 þúsund manns. Þegar heildarfjöldi sýktra er áætlaður þarf að gera ráð fyrir að hluti inflúensulíkra einkenna sé í raun aðrar öndunarfærasýkingar og einungis hluti þeirra sem sýkjast leita til læknis. Þessar stærðir eru ekki fyllilega þekktar sem veldur nokkurri óvissu við áætlun á heildarfjölda sýktra, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

Þann 22. nóvember sl. höfðu alls 698 einstaklingar greinst með inflúensu A(H1N1) á Íslandi sem staðfest var á veirufræðideild Landspítala. Þar af voru 344 karlar og 354 konur. Í síðustu viku var sýkingin staðfest hjá sjö einstaklingum, sem er fækkun miðað við undanfarnar vikur. Sýnum sem send eru í greiningu á svínaflensunni stöðugt fækkandi sem og hlutfall jákvæðra sýna.

180 lagðir inn á tveggja mánaða tímabili

Frá 23. september til 22. nóvember hafa tæplega 180 einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús með grun um inflúensu eða staðfesta inflúensu A(H1N1). Langflestir hafa verið lagðir inn á Landspítala eða um 130, þar af hafa alls 20 einstaklingar legið á gjörgæsludeild Landspítalans.

Þann 25. nóvember voru fimm sjúklingur innliggjandi með inflúensu á Landspítala, þar af var einn á gjörgæslu. Alls hafa 26 einstaklingar lagst inn á sjúkrahúsið á Akureyri vegna inflúensu, þar af hefur einn legið á gjörgæsludeild. Tíu manns hafa verið lagðir inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Stöku innlagnir hafa orðið á öðrum heilbrigðisstofnunum. Þar af voru tveir á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og á Neskaupstað og einn á Blönduósi, Selfossi og Egilsstöðum, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka