Tafir á bólusetningu gegn svínaflensu

Alls hafa um 70 þúsund verið bólusettir
Alls hafa um 70 þúsund verið bólusettir mbl.is/Ómar Óskarsson

Töf á afhendingu bóluefnis gegn A(H1N1) inflúensu raskar áætlunum sem gerðar höfðu verið um bólusetningar. Þórólfur Guðnason yfirlæknir á sóttvarnasviði landlæknis segir líklegt að þegar fyrirliggjandi bóluefnisbirgðir  klárist verði næsta skammti ekki dreift fyrr en 15. desember.

Þórólfur sagði að framleiðsla á bóluefninu hafi ekki verið í samræmi við áætlanir. Þar er m.a. um að kenna undirverktökum framleiðandans. Hann sagði fleiri en Íslendinga verða fyrir barðinu á þessari töf.

Áætlað var að bóluefnið yrði afhent vikulega. Fólk yrði því kallaði inn vikulega til bólusetningar. Þórólfur sagði að bóluefni sem átti að koma í þessari viku komi e.t.v. ekki fyrr en í næstu viku. 

Sennilega verður áætlun um bólusetningu breytt þannig að bóluefni verði ekki dreift fyrr en 15. desember og þá því magni sem verður tiltækt. Þeir sem eiga pantaða bólusetningu á næstu dögum mega því búast við að verða ekki bólusettir fyrr en eftir 15. desember.

Misjafnt er hve mikið heilsugæslustöðvar eiga nú af bóluefninu. Því er ekki ljóst hvernig gengur að bólusetja þá sem þegar eru á biðlista eftir bólusetningu. 

Nú er búið að bólusetja forgangshópa, þ.e. heilbrigðisstarfsfólk, fólk í öryggisþjónustu og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, og byrjað að bólusetja almenning. Þórólfur taldi stöðuna hér betri en annars staðar á Norðurlöndunum. Þar sé ekki búið að  bólusetja forgangshópana.

Sóttvarnalæknir hefur nú tilkynnt að bóluefni verði næst dreift til heilsugæslustöðva 15. desember og síðan 6. janúar 2010 og munu heilsugæslustöðvar ekki taka við fleiri tímapöntunum í bólusetningu fyrr en 15. desember, fyrir það bóluefni sem þá verður dreift.

Starfsfólk heilsugæslustöðva bólusetur áfram með því bóluefni sem það hefur til umráða, á meðan það endist.Segir í tilkynningu að heilsugæslustöðvar annast endurbókanir tíma fyrir bólusetningu og veita upplýsingar.

Ástæður tafa við afhendingu bóluefnis eru minni framleiðslugeta framleiðandans en áætlað var, vandamál sem tengjast innpökkun bóluefnis og fleira. Vandinn snertir alla sem bíða eftir bóluefninu, ekki aðeins Íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert